Síðustu daga hafa Husband, McCool, Anderson, Brown, Chawla, Clark og Ramon verið með mest áberandi nöfnum í fjölmiðlum. Þau skipuðu áhöfn geimferjunnar Columbia sem fórst síðastliðinn laugardag. Líklega þekkti enginn lesandi Deiglunnar þau persónulega en samt setur óhug að okkur öllum við þetta hrikalega slys.
Í pistli hér á sunnudag var sagt að daglega verði ótölulegur fjöldi dauðsfalla vegna slysa og þetta því ekki sorglegra en önnur slys, þótt það sé vissulega dramatískara. Auðvitað er þetta rétt, en hvers vegna er það þannig? Hvers vegna bregðumst við sterkar við þessu tiltekna slysi en dauðsföllum í stríðum í fjarlægum löndum? Hvers vegna senda erlendir þjóðarleiðtogar forseta Íslands ekki samúðarskeyti þegar áhöfn fiskiskips ferst?
Svörin eru ekki einföld en þó held ég að eitt umfram flest annað veki þessi viðbrögð, nefnilega óttinn við hið óþekkta. Það er ekki bara vegna ráðgátunnar um hvað grandaði geimflauginni. Heldur miklu fremur vegna hetjulundarinnar sem veitti geimförunum kjark til að kanna óravíddir geimsins, leiða mannkynið inn í nýja geimöld.
Öll erum við sporgöngumenn framan af ævinni. Nánustu ættingjar ryðja brautina fyrstu árin og þótt fótsporunum sem við fetum í fækki eftir því sem á líður eru aðeins fáir sem víkja af leið og velja algjörlega ótroðna og óþekkta slóð. Þetta fólk verður að hetjunum okkar, lýsir leiðina, hvort sem um er að ræða geimfara eða hvunndagshetjur úr okkar eigin fjölskyldu.
Þegar við verðum vitni að atburðum sem þessum eða kveðjum nána vini og ættingja leiðum við hugann að því sem raunverulega skiptir mestu máli í lífi okkar, eins og kærleiki og vinátta. Það er því sorglegt að fólk noti slíka atburði til að ala á hatri og fordómum eins og múslimaklerkurinn Sheikh Abu Hamza gerði meðal annars í viðtali við Sky fréttastofuna í gær.
Í heiminum er mikið hatur og grimmd af þessu tagi. Til að sigrast á þessum afkvæmum óttans þurfum við að standa sameinuð gegn hvers kyns fordómum. Það þarf yfirleitt meiri kjark til að eignast vini en óvini. Við þurfum því reglulega að spyrja okkur sjálf hvað við stöndum fyrir og vera trú okkar eigin sannfæringu. Taka við kyndlinum til að lýsa upp myrkrið og afhjúpa hið óþekkta, sama hvað á dynur. Sönn hetjudáð er að gera þetta án þess að blindast af eigin hégóma og hagsmunum.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021