Baksíðufrétt DV fyrir nokkrum vikum vakti athygli mína. Þar var fjallað um ungan starfsmann Kaupþings sem hafði verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald vegna gruns um auðgunarbrot. Það eina óvenjulega var að með fréttinni var birt mynd af viðkomandi starfsmanni.
Helsta álitaefnið í nafna- og myndbirtingum gegnum tíðina hefur verið árekstur upplýsingaskyldu fjölmiðla og friðhelgi einkalífs. Því hefur stundum verið haldið fram að töluverðir almannahagsmunir þurfi að vera í veði til að fjölmiðlar ákveði að birta myndir af afbrotamönnum. Dagblaðið-Vísir er reyndar besta dæmið því þann 3. október 1986 birti DV stóra mynd af síbrotamanninum Steingrími Njálssyni. Sú myndbirting varðaði almannahagsmuni og bar árangur þar sem hún bjargaði einhverjum fórnarlömbum úr klónum á honum. Einhverra hluta vegna þá hefur síðan farið lítið fyrir myndbirtingum DV af kynferðisbrotamönnum.
Það vekur óneitanlega athygli að DV hafi kosið að birta mynd af viðkomandi starfsmanni Kaupþings sem hefur ekki einu sinni verið ákærður fyrir refsiverða háttsemi. Við heyrum af því nánast á hverjum einasta fimmtudegi þegar dómar eru kveðnir upp í Hæstarétti að einhver eintaklingur hafi verið fundinn sekur um alvarlega glæpi, aðallega kynferðisbrot gegn börnum. Eins og áður sagði þá hefur DV ekki í seinni tíð séð ástæðu til að birta myndir af þeim einstaklingum þrátt fyrir að þeir hafi verið fundnir sekir og að töluverð rök liggi að því að samfélagið hafi meiri hag af því að vita hvernig dæmdur kynferðisafbrotamaður lítur út heldur en einstaklingur í gæsluvarðhaldi grunaður um hvítflibbabrot..
Myndbirtingar fjölmiðla eru gífurlega öflugt tæki við fréttamennsku. Myndbirtingar á glæpamönnum eru vandmeðfarnar og það má færa rök fyrir því að einstakir fjölmiðlar eigi að móta sér stefnur og viðmið í þessum málum en ekki hafa myndbirtingarnar handahófskenndar. Handahófskenndar myndbirtingar eru slæleg blaðamennska. Hvort myndbirting DV feli í sér stefnubreytingu hjá blaðinu í þá átt að nú verði birtar myndir af öllum brotamönnum frá morðingjum niður í fjársvikara, dæmdum og grunuðum verður fróðlegt að sjá. Hvort myndbirtingin DV hafi eingöngu verið vegna þess að mynd af viðkomandi starfsmanni var á heimasíðu Kaupþings og hann lá því vel við höggi skal ósagt látið. En ég hallast að seinni kenningunni.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020