Það eru fá vefsetur sem geta í senn státað af jafnviðamiklu magni upplýsinga og aðgengilegu viðmóti og til staðar er í Íslendingabók hinni nýrri, sem opnuð var öllum almenningi á dögunum. Uppsetningin er snyrtileg og möguleikar veraldarvefsins eru nýttir í ríkum mæli en þó án óhófs. Snyrtilegir vefir eru reyndar ekki sjaldséð sjón en öllu óalgengara er þó að sjá vefsetur þar sem jafnumfangsmikið gagnasafn er á bakvið viðmótið.
Enn sjaldgæfara er þó að slíkir gagnabankar séu opnir öllum án endurgjalds. Ekki er farið fram á annað í staðinn en að menn bendi á þær villur sem þeir kunna að finna í gagnabankanum. Það er gleðilegt fyrir almenning að fyrirtækin sem standa að baki vefnum hafi séð sér fært að veita aðgang á þessum forsendum, sérstaklega í ljósi þess að nú er rukkað fyrir aðgang að æ fleiri vefsíðum.
Nýskráning í kerfið gæti varla verið einfaldari, notandi slær inn kennitölu og nokkrum dögum síðar fær hann sent nafn og lykilorð í pósti. Þá er bara að skrá sig inn og byrja. Upplýsingar um notandann og nánustu fjölskyldu birtast í upphafi og hægt er að smella á hvaða nafn sem er og ferðast þannig um ættartré sitt og kanna hvað þar er að finna. Það er líka einfalt að leita í grunninum, og á augabragði getur notandinn fundið skyldleika sinn við hvern sem er. Kerfið gætir þess þó vandlega að engar upplýsingar aðrar en nafn og fæðingardagar séu aðgengilegir, nema fyrir nánustu ættingja.
Það hefur valdið pistlahöfundi ákveðnum heilabrotum hversu Íslensk Erfðagreining, fjárhagslegur bakhjarl kerfisins, og Kári Stefánsson forstjóri fyrirtækisins, eru illa liðin á Íslandi. Því verður ekki neitað að fyrirtækið hefur notið gríðarlega mikils aðgengis að ráðamönnum og fyrirgreiðslu sem á nánast engan sinn líkan meðal einkafyrirtækja á Íslandi. Hins vegar virðist sem ákveðinn hópur fólks hafi andúð á Kára, og þyki nauðsynlegt að hnýta í allt sem hann eða fyrirtæki hans kemur nálægt.
Íslendingabók hefur ekki farið varhluta af því, og svo virðist sem sumum þyki ekkert geta verið rétt gert, svo lengi sem það tengist Kára Stefánssyni. Íslenskir ættfræðingar risu upp á afturlappirnar þegar hugmyndin var fyrst kynnt og kröfðust gríðarlegra bóta fyrir meintan ritstuld fyrirtækisins. Sjálfsagt og eðlilegt er að krefjast endurgjalds eða bóta ef á einvherjum er brotið, en eðlilegra er að gera slíkar kröfur fyrir dómi en í fjölmiðlum. Meginröksemd ættfræðinganna var á sínum tíma að enginn möguleiki væri að gera Íslendingabók kórrétta nema taka allt upp úr ættfræðibókum. Við birtinguna hefur komið í ljós að Íslendingabók er alls ekki kórrétt, en þá er tekin kúvending og Íslenskri Erfðagreiningu úthúðað fyrir að kerfið sé fullt af villum.
Svipað er uppi á teningnum í persónuverndarmálum. Eftir að tekið var tillit til athugasemda þeirra sem töldu að Íslendingabók myndi opna greiða leið að viðkvæmum persónuupplýsingum, og fullkomin aðgangsstýring sett á kerfið, þótti sumum ástæða til að kvarta yfir því að vegna aðgangsstýringa væri ekki hægt að rekja ættir á þennan veginn eða hinn. Slík gagnrýni á engan rétt á sér þegar í hlut á kerfi sem almenningi er veittur aðgangur að án endurgjalds eða skuldbindinga. „Eigi skal höggva“, eins og forfaðir pistlahöfundar (samkvæmt Íslendingabók) sagði eitt sinn.
Íslendingabók er stórgott framtak og á hrós skilið. Forsvarsmenn hafa gefið um það fyrirheit að þeir vilji auka við virkni kerfisins og það er vonandi að þetta vel heppnaða vefkerfi eigi enn eftir að batna í framtíðinni.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020