Kosningar nálgast óðfluga og með þeim skemmtilegar hugmyndir sums fólks um hvernig peningum annarra skyldi eytt. Sú nýjasta er stofnun sjóðs til aðstoða íslenska tónlistarmenn við að koma sér á framfæri erlendis.
Nú skal það viðurkennt að hugmyndin er hvorki sú dýrasta né heimskulegasta ef horft er til þess hvaða fyrirbæri sem Ríkið hefur hingað til styrkt til að vera flutt úr landi. Upphæðirnar sem um ræðir yrðu til dæmis áreiðanlega ekki háar miðað við þær krónur sem íslenskir þegnar eyða til að sannfæra sjálfa sig um að þeirra landbúnaðarvörur séu betri en aðrar. Né heldur yrði hugmyndin úr takti við þann vana opinbera stofnana starfsmanna að nota peninga almennings til að kaupa listaverk eftir kunningja sína fyrir fleiri milljónir króna.
En peningaeyðsla getur ekki talist rök fyrir meiri peningaeyðslu. Engin venjulegur maður hugsar: “Ég er búinn að eyða svo miklum peningum í áfengi að ég þyrfti að byrja reykja.” Þess vegna líst mér illa á hugmyndina. Ég geri þær kröfur að ríkið noti peninga í það sem sé nauðsynlegt. Heilbrigðisþjónusta er nauðsynleg. Sjóður sem á að styðja við bakið við útflutningi á íslenskri tónlist er það ekki.
Eða hvernig er það? Ég veit ekki betur en að íslenskum tónlistarmönnum hafi hingað til tekist að koma sér á framfæri erlendis þrátt fyrir skort á sérstökum útflutninssjóðum. Björk, Sigur Rós og Quarashi er sönnun þess. En er þessi árangur kannski aðeins skuggi af því sem hefði orðið er sjóðsins hefði notið við.
Hefði Selma kannski meikað það hefði útflutningssjóðurinn verið til staðar? Væru Mezzoforte á barmi heimsfrægðar ef sjóðsins hefði notið við? Mundu Bubbleflies fá lag í Trainspotting með stuðningi hans? Ég leyfi mér að efast…
Ég held að allir áhugamenn um umræddan sjóð geta viðurkennt að það er á engan hátt ”lífsnauðsynlegt” fyrir íslenskt samfélag að hann verði til. Það gæti hugsanlega orðið “gaman” eða “heppilegt” en ekki ómissandi. Af þeim ástæðum ætti hann ekki að vera á framfærslu hins opinbera.
Auðvitað er það kjörið að íslenskir tónlistarframleiðendur tækju höndum saman til að styrkja innlenda framleiðslu og útflutning hennar. Ef að Ríkið vill styrkja þá í þeirri viðleitni getur það gert það með afar einföldum hætti. Lækkað skatta. Þar með munu tónlistarbransinn hafa meiri pening milli handanna og getur notað hann til að styðja við bakið á þeim listamönnum sem talið er að geti náð vinsældum. Úthlutanir úr ríkisreknum sjóðum eru alltaf umdeildar enda efast margir (eðlilega) um dómgreind stjórnmálamanna. Slíkar úthlutanir eiga það því miður oft til að stjórnast af öðru en gæðum fjárfestingar, enda menn ekki að fjárfesta sínu eigin fé og geta því horft fram hjá slíkum smámunum.
Það svo annað mál að þetta nöldur mitt muni ekki skila miklu nema kannski ásökunum um skammsýni og bréfum frá fólki sem telur að “maður lifi ekki á brauðinu einu saman”. Yfirgnæfandi líkur virðast á því að útflutningssjóður tónlistarlífsins taki til starfa innan skamms alveg óháð þessum skrifum. Ég verð því að takmarka ósk mína um að þingmennirnir haldi að sér höndum við eyðsluna og fari ekki á dæmigert kosningafyllerí.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021