Síðastliðinn miðvikudag birtist pistill hér á Deiglunni þar sem aðhaldsaðgerðir stjórnvalda voru gagnrýndar. Pistlahöfundur leiddi að því rökum að nú væri ekki rétti tími til aðhaldsaðgerða heldur, þvert á móti, ætti ríkissjóður að nýta slaka í hagkerfinu til þess að ráðst í ýmis konar verklegar framkvæmdir til að „milda niðursveifluna.”
Pistlahöfundi yfirsést að vandamál íslenska hagkerfisins er að það inniheldur engan slaka. Einkageirinn er að nota upp allt vinnuafl, atvinnuleysi er enn hverfandi og verðbólgan er allt of há. Þó svo að atvinnuleysi aukist á næsta ári og draga taki úr verðbólgu verður hagkerfið enn það viðkvæmt að ekki borgar sig að viðhalda ójafnvægi með peningainnspýtingu frá ríkinu. Undangengið góðgæri hefur ekki síst endað í vösum þeirrar atvinnugreinar sem sjá um verklegar framkvæmdir vegna umtalsverðrar umframeftirspurnar. Nú er svo komið að of greinin inniheldur of marga starfsmenn og/eða borgar of há laun. Því verðum við að gefa hagkerfinu tóm til þess að jafna sig án þess að ríkið fari að spýta inn peningum og fresta þannig vandanum – ergo, lengja samdráttarskeiðið. Því eru þær aðgerðir sem ríkisstjórnin nú boðar nauðsynlegar.
Við skulum rétt vona að ríkið haldi að sér höndum og fari alls ekki út í sértækar „kreppuaðgerðir”. Slíkar aðgerðir fela í sér að stjórnmálamenn þykjst hafa fullkomnar upplýsingar um hagkerfið og geti þ.a.l. gripið inn í atburðarásina. Það býr enginn yfir fullkomnum upplýsingum um stöðu hagkerfisins á hverjum tíma og slíkar hugmyndir, um að ríki geti afstýrt kreppum, minna óneitanlega á hugmyndir kommúnista um verðmyndunarnefndir er ákveða skyldu „rétt” verð á markaði út frá fullkomnum upplýsingum.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009