Mörgum þykir skemmtilegt að benda öðrum á þverstæður í lífinu. Sögur af ósyntum sunlaugarvörðum og reykjandi læknum þykja kærkomin viðbót við raunveruleikann. Margir brandarar birtast einnig í formi þversagna t.d. þegar reykingar eru bannaðar á botni sundlaugar.
Margir sem taka til máls í máli og riti fara á sannkallaðar þverstæðuveiðar máli sínu til stuðnings. Nú má til dæmis oft heyra því fleygt fram að fáranlegt sé að Rauði kross Íslands reki spilakassa og ágóði úr þeim sé síðan notaður til að hjálpa fólki. Það sem á að vera svona fáranlegt er að sumt af þessu fólki eru spilafíklar sem telja kassana vera aðalástæðu eymdar sinnar.
Ég sé einfaldlega ekki hvað sé þversagnakennt eða slæmt við þetta. Væri betra ef að Rauði krossinn mundi passa sig á því að styrkja allt nema aðstoð við spilafíkla til að forðast það að vera sakaður um hræsni? Er það virkilega einhver þversögn fólgin í því að hjálpa fólki sem skaðast af starfsemi manns? Ég get ekki séð að svo sé.
Margir hafa að undanförnu gagnrýnt þessa starfsemi Rauða krossins og Háskólans. Fólki blöskrar til dæmis hve miklum peningum unglingar virðast eyða í kassana. Þó að RKÍ og Háskólinn hljóti að bera ábyrgð á því hvaða áhrif tækin hafa á viðskiptavini þeirra má heldur ekki gleyma ábyrgð unglinga, foreldra og eigenda söluturna. Það eru, jú, þau öll sem eru að brjóta lögin, ekki Rauði krossinn.
Í frjálsu þjóðfélagi ætti fólki að vera heimilt að eyða peningum sínum í vitleysu. En slíku frelsi verður auðvitað að fylgja ábyrgð. Ef að fólk vill koma í veg fyrir að fólk ánetjist spilakassana eins og eiturlyf er áreiðanlega hægt að gera það með öðrum hætti en þeim að banna þá. Það er til dæmis örugglega hægt að koma í veg fyrir að börn undir aldri spili í spilakössunum með öflugu átaki þeirra sem að þeim standa. Einnig ættu foreldrar að geta axlað smá ábyrgð í stað þess að velta henni sífellt yfir á aðra.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021