Verðstríð á kjötmarkaði hefur varla farið fram hjá neinum, í það minnsta ekki þeim sem þurfa að versla inn fyrir heimilið. Það sem hefur vakið sérstaka athygli eru verðlækkanir á hvítu kjöti.
Stöðugar verðlækkanir hafa verið á svínakjöti allan síðasta áratug. Á sama tíma hefur svínabúunum farið fækkandi og þau hafa orðið stærri. Á árunum 1991-2001 stækkaði meðalbúið úr 31.4 gyltum á hvert bú yfir í 130 gyltur á hvert bú. Þróunin hefur verið mjög hröð, í staðinn fyrir lítil bú eru komir risavaxin iðnaðarsvínabú sem hafa náð mikilli hagræðingu í krafti stærðarinnar.
Þegar horft er hins vegar til hefðbundins landbúnaðar eins og sauðfjárræktar, er allt önnur staða uppi. Meðalfjöldi kinda á bú hefur nánast staðið í stað frá árinu 1991. Sauðfjárbændur eru háðir ríkisstyrkjum, en mjög strangar reglur gilda um hvernig flytja má greiðslumark á milli búa, þannig að þeim er gert mjög erfitt fyrir með að að ná fram hagræðingu á búum sínum.
Það kemur því ekki á óvart að Bændasamtökin skuli gangrýna harkalega svína- og kjúklingabændur. Bændasamtökin eru væntanlega samtök allra bænda en þar eru þó bændur í hefðbundnum rekstri í meirihluta, sem eiga mjög erfitt uppdráttar á móti svína- og kjúklingabændum.
Þrátt fyrir mörg markaðsátök á undanförnum árum, nær ást Íslendinga á lambakjöti ekki lengra en svo að neysla á lambakjöt hefur dregist saman síðan 1985 úr rúmlega 43 kg á ári og niður í tæplega 24 kg árið 2001. Staða sauðfjárbænda er einnig erfið vegna þess að hægt er að afhenda hvítt kjöt ferskt allt árið- á meðan ferskt lambakjöt fæst aðeins á vissum tímum ársins.
Vilji Íslendingar áfram fá kjöt af íslensku sauðkindinni er ljóst að gefa þarf sauðfjárbændum meira svigrúm til framsals greiðslumarks, en það er forsenda þess að hægt sé að hagræða í rekstrinum og bjóða lambakjöt á samkeppnishæfu verði. Það þarf að gerast áður en sala á öðrum kjötvörum hefur endanlega komið af borðum landsmanna.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020