Í síðustu borgarstjórnarkosningum lagði Sjálfstæðisflokkurinn mikla áherslu á uppbyggingu miðbæjarins og varaði við þeim vanda sem verslunar- og fyrirtækjaeigendur á því svæði þurfa að glíma við. Meirihlutinn í R-listanum bendir hins vegar á Menningarnótt sem dæmi um hversu vel gangi að halda lífi í þessum gamla kjarna höfuðborgarinnar.
Þegar skyndibitakeðjan McDonald´s hætti rekstri í miðbæ höfuðborgarinnar skömmu fyrir áramót vakti það ekki mikla athygli. Þó má fullyrða að sú staðreynd, að þessi frægasta skyndibitakeðja heims sjái sér ekki fært að reka lítið útibú í Austurstræti, segi meira en mörg orð um þá þróun sem á sér stað í miðborginni.
Morgunblaðið ræddi við nokkra kaupmenn í miðborginni fimmtudaginn 9. janúar sl. Þar var m.a. rætt við Kornelíus Jónsson, úrsmið, sem rekið hefur verslun í miðbænum í yfir 60 ár. Hann skóf ekki utan að því heldur taldi að miðbærinn væri að breytast í “draugabæli” og að smám saman væri að draga úr umferð fólks þangað. Meðal þeirra ástæða sem helst eru nefndar eru há bílastæðagjöld og fá bílastæði. Þetta er augljós galli sem verslanir í miðbænum þurfa að búa við í samkeppni við stóru verslunarmiðstöðvarnar sem bjóða upp á nánast ótakmarkaðan fjölda bílastæða, sem að auki eru gjaldfrjáls.
Styrkur miðbæjarins er hins vegar sá að hann býr yfir sjarma sem ekki er auðvelt að endurskapa innan veggja verslunarmiðstöðva. Sá sjarmi á ríkan þátt í því að tugþúsundir Íslendinga leggja leið sína á Laugaveginn á Þorláksmessu hvert ár til þess að kaupa síðustu gjafirnar, mæta fólki á förnum vegi, óska gleðilegra jóla, fá sér kaffi eða bjór á veitingastöðum og koma sér í jólaskapið.
Miðbær Reykjavíkur er óhemju fallegt svæði og skemmtilegt og vísast myndu margir hafa áhuga á því að verja meiri tíma þar ef hindranir, s.s. eins og áðurnefnd stöðugjöld, væru ekki í veginum.
Því miður er framtíðarútlitið fyrir miðbæ Reykjavíkur ekki sérstaklega gott. Nú eru einungis örfá stór þjónustufyrirtæki með höfuðstöðvar sínar á því svæði og vitað er að t.d. Landssíminn hefur leitað logandi ljósi að hentugum stað til þess að flytja höfuðstöðvar sínar á og ekki er ólíklegt að annar hvor bankanna, Landsbanki eða Búnaðarbanki, sjái sér ófært á næstu árum að hafa höfuðstöðvar sínar í hjarta miðborgarinnar.
Ljóst er að forsenda blómlegs lífs í miðbænum er ekki síst að nokkur hópur fólks sæki þangað sín daglegu störf og það er í raun dapurlegt að sjá að á síðasta áratugi þegar vegur þjónustufyrirtækja, s.s. eins og fjármálastofnanna, hefur farið sívaxandi, hefur ekki verið gerð tilraun til þess að skapa þessum fyrirtækjum tækifæri til þess að hafa höfuðstöðvar sínar nálægt miðbænum. Í stað þess hafa þessi fyrirtæki risið við Ármúlann og Borgartúnið. Ef borgaryfirvöld hefðu haft framsýni til þess að gefa þessum fyrirtækjum tækifæri til þess að hafa starfsemi í miðbænum er ljóst að sá vandi sem nú blasir við verslunareigendum á því svæði væri ekki til staðar.
Ekki er þó öll nótt úti enn og ef borgaryfirvöld ákveða að slaka á reglum um byggingarframkvæmdir í miðbænum, leyfa að fleiri gömul hús séu rifin og að byggð séu bærilega háreist hús í staðinn, þá gæti miðstöð fjármála- og þjónustu smám saman færst aftur í miðbæinn.
Hinn augljósa bílastæðavanda má leysa með bílastæðahúsum sem gera má ráð fyrir að fyrirtækin sjálf hefðu hag að því að standa að rekstri slíkra húsa. Þá er líklegt að með auknu mannlífi og meiri viðskiptum verði það sjálfgefið að fjárfesting borgarinnar í bílastæðamannvirkjum muni borga sig. Þó er einsýnt að Reykjavíkurborg verður að endurhugsa tilgang stöðugjaldanna. Það er bjánalegt að hugsa um þau sem sérstaka tekjulind heldur eru þau í raun neyðarúrræði til þess að stjórna því að eðlilegt flæði geti átt sér stað í bílastæðanotkuninni.
Ég tel líklegt að fjölmörg fyrirtæki tækju því fegins hendi ef möguleiki væri á því að staðsetja höfuðstöðvar sínar í miðbænum. Það myndi spara fyrirtækjunum mikið ef helstu þjónustufyrirtæki væru staðsett í göngufæri við hvert annað og starfsmennirnir sjálfir nytu þess að starfa í umhverfi þar sem allt iðar af mannlífi og fyrirtæki og verslanir blómstra.
Víst er Menningarnóttin skemmtilegt fyrirbæri og ákveðin lyftistöng fyrir miðbæinn. Það er hins vegar mikil sjálfsblekking hjá forystumönnum meirihluta borgarstjórnar að halda því fram að miðbærinn sé ekki í vanda. Ein velheppnuð menningarnótt á ári hefur lítil áhrif á rekstur fyrirtækja í miðbænum – ekki frekar en að ein þjóðhátíð á ári hefur gert Herjólfsdal í Vestmannaeyjum að iðandi verslunarmiðstöð.
Miðbærinn er í vanda og ef fram fer sem horfir, þar sem engin raunveruleg úrræði virðast koma frá meirihlutanum, þá mun miðbærinn verða að því „draugabæli“ sem Kornelíus kaupmaður talar um. Til þess að miðbærinn þrífist þarf hann fólk, og til þess að fólk sæki í miðbæinn þarf verslanir og fyrirtæki. Á meðan stjórnvöld í Reykjavík nenna ekki að glíma við þetta viðfangsefni af alvöru þá dregur úr líkunum á því að nokkru sinni verði hægt að snúa þessari þróun við.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021