Stjórnarskrá Íslands var formlega breytt eftir seinustu kosningar og ný kosningalög voru sett. Tilgangurinn með breytingunum var, eins og svo oft áður, að jafna atkvæðavægi. (Sumir segja að á Íslandi sé eini hvatinn að baki stjórnarskrárbreytingum að minnka völd Framsóknarflokksins.)
Hin nýja 31. grein Stjórnarskrár hljóðar svo:
Um framkvæmd kosninga gilda síðan sérstök lög. Samkvæmt núgildandi kosningalögum er gert ráð fyrir 6 kjördæmum, þremur 11 manna kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu og þremur tíu manna á landsbyggðinni. Með þessu eru þingmenn höfuðborgarsvæðisins í fyrsta skipti komnir í meirihluta á Alþingi. Það lítur reyndar allt út fyrir að færa þurfi einn þingmann frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis (sveitarfélög umhverfis Reykjavík) en menn á kjörskrá að baki hverjum þingmanni Norðvesturkjördæmi eru nú helmingi færri en í Suðvesturkjördæmi. Það er hér við hæfi að hrósa löggjafanum hér fyrir að hafa búið til tiltölulega sveigjanlegt kerfi sem getur lagað sig að breyttu búsetumynstri á skömmum tíma en ekki þarf lagabreytingu til að samþykkja umrædda tilfærslu. Eini ókosturinn sem má sjá er að ef einhvern tímann þarf að færa þingmann í annað hvort Reykjavíkurkjördæmanna þá verða kjördæmin tvö ekki lengur með jafnmarga þingmenn og munu því ekki lengur geta verið „jafnstór“ eins og gert er ráð fyrir. En úr þessu má væntanlega leysa.
En þá að úthlutun þingsæta. Fyrir breytingar var notast við svokallaða „reglu hinna stærstu leifa“. Þar var fjöldi kjósenda bak við hvert þingsæti fundinn út og þeirri tölu deilt upp í atkvæðafjölda hvers framboðs. Þau þingsæti sem upp á vantar koma í hlut framboða með stærsta afganginn af deilingunni. Oft geta það verið framboð sem hafa fengið tiltölulega fá atkvæði, sérstaklega ef margir eru í framboði. Tökum dæmi:
Í kjördæmi með 10 þingmenn fær A 8300 atkv., B 1300 og C 400 atkv. Fjöldi atkvæða á hvert þingsæti er 1000. A fær því 8, B fær 1 og C fær 0. En C er með stærstu leifina, þ.e. 400 á meðan að hinir eru báðir með leifar upp á 300 atkv. svo C fær að auki eitt þingsæti.
Aðferðin sem héðan í frá verður notast við kallast heiltöludeiling. Þar er tölunum 1,2,3… deilt í atkvæðafjölda hvers framboðs. Hæsta talan í töflunni táknar fyrsta þingmann kjördæmis, næsthæsta annan o.s.frv. Í dæminu hér að ofan fengi A því sinn níunda þingmann á kostnað C því 8300/9=922,22… sem er stærra en 1300/2=650 (annar þingmaður B) eða 400/1=400 (fyrsti þingmaður C). Almennt má því segja að heiltöludeiling henti betur stórum framboðum og minnki t.d. töluvert möguleika hvers kyns sérframboða.
Heiltöludeilingin er ekki það eina sem minnkar möguleika minni stjórnmálaflokka. Íslendingar hafa fengið að láni svo kallaða 5% reglu sem notuð er víða í Evrópu. Samkvæmt hennar íslensku útgáfu eiga framboð aðeins rétt á uppbótarþingmönnum hafi þau fengið 5% atkvæða á landsvísu. Þessu regla er oftast notuð á mjög stórum þjóðþingum sem annars myndu fyllast af hvers kyns smáframboðum en hennar er varla þörf hér. Eðlilegra væri að miða við einn kjördæmakjörinn þingmann eins og áður eða einhverja samblöndu af hvoru tveggja.
Annars er úthlutun uppbótarþingmanna ekki svo skelfilega flókin. Fyrst er farið að sem landið væri eitt kjördæmi og fundið út með heiltöludeilingu hvaða framboð eigi að fá næsta mann inn. Síðan er fundin sá einstaklingur úr því framboði sem næstur er því að komast inn og honum úthlutað þingsæti. Þá er aftur fundið hvaða framboð eigi rétt á næsta manni og svo koll af kolli. Ókosturinn er að seinustu þingmennirnir sem ná inn kunna hafa fengið fá atkvæði í sínu kjördæmi en það er engin önnur leið til jafna vægi atkvæða án þess að koma á landslistum. Einnig geta litlar breytingar á fylgi haft það för með sér að þessir öftustu menn „detti oft inn og út“ fram eftir nóttu sem fær marga til að halda að kerfið sé tilviljunum háð. Svo er hins vegar ekki. Það er til dæmis alltaf gott fyrir þingmann ef einhver kýs hann og slæmt ef einhver kýs andstæðingin. Uppbótarþingmannakerfið breytir því ekki.
Hinar nýju breytingar á kosningum til Alþingis eru upp til hópa vel unnar. Nú er bara að sjá hvort hið nýja fyrirkomulag nái að festa sig í sessi eða hvort því verður breytt aftur áður en langt um líður.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021