Í umræðum um kvótakerfið er því gjarnan haldið á lofti, að úthlutun aflaheimilda á sínum tíma hafi verið óréttmæt og því beri að gera þær upptækar á ákveðnum tíma með svokallaðri fyrningarleið (ýmis önnur rök eru reyndar færð fyrir fyrningarleiðinni en ekki verður farið nánar út í þau hér). Hefur þetta oft verið orðað svo að rétt sé að þjóðin njóti afrakstursins af auðlindinni, þar sem hún sé „eigandi“ hennar. Það má reyndar vissulega færa rök fyrir því að úthlutunin á sínum tíma hafi í senn verið óréttlát og heimskuleg. Einungis var byggt á skammvinnri veiðireynslu og ekkert tillit tekið til sveiflu í veiðum á ákveðnum stöðum á landinu.
En getur kerfi sem hugsanlega er óréttlátt í fyrstu áunnið sér réttmæti – eða er upphaflega óréttlætið hafið yfir gröf og dauða? Kannski togast hér á nytjastefna Mills og skyldustefna Kants. Fyrir rúmu einu og hálfu ári, 19. apríl 2000, birtist hér á Deiglunnipistil sem fjallaði um landbúnaðarstefnu Roberts Mugabes, forseta Zimbabwe. Hann hafði þá gefið fyrirskipun um að jarðir hvítra bænda skyldu gerðar upptækar, að þeir „skiluðu“ jörðunum aftur til „eigenda“ jarðanna, innfæddra. Þessi stefna bar heitið Umbætur í jarðamálum.
Nú um það bil tveimur árum eftir að umbæturnar í jarðamálum hófust í Zimbabwe er þjóðin á vonarvöl og hungursneyð jafnvel yfirvoandi. Zimbabwe, áður Rhódesía, er eitt af gjöfulustu ríkjum Afríku frá náttúrunnar hendi og var lengi kölluð matarkista suðurhluta Afríku. En þegar landið var tekið úr höndum bændanna sem höfðu gert það með vinnu sinni og kunnáttu, varð uppskerubrestur, því enginn hinna „raunverulegu eigenda“ kunni nokkuð til verka.
Land er nefnilega ekkert verðmætt í sjálfu sér og fiskurinn í sjónum, óveiddur, er það auðvitað ekki heldur. Eignin, verðmætið, verður til með vinnu og því betri og markvissari sem sú vinna, því meira verður verðmætið sem hægt er að nýta úr auðlindinni. Og eins og dæmið frá Zimbabwe sannar, þá er það allra hagur að auðlindir þjóðarinnar séu nýttar með sem hagkvæmustum hætti og að afraksturinn sé hámarkaður.
Þeir bændur sem ýmist voru drepnir eða hraktir burt í jarðaumbótunum voru ekki þeir sem tóku landið af innfæddum í upphafi. Þeir höfðu margir hverjir fest kaup á landinu síðar eða landið gengið í erfðir. Á líkan hátt er því farið með aflaheimildir á Íslandsmiðum, þær hafa gengið kaupum sölum og minnihluti heimildanna er á höndum þeirra sem fengu við fyrstu úthlutun. Og úr því sem komið er, þá er lítil hætta á öðru en að aflaheimildirnar finni sér samastað, með kaupum og sölum, þar sem þær eru best nýttar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021