Viss andúð hefur lengi verið til staðar í Evrópu gagnvart Bandaríkjunum, stefnu þeirra og menningu, jafnvel þó hagsmunir hafi oftar en ekki farið saman. Frá lokum Kaldastríðsins hefur bilið vaxið enn frekar, tollastríð hefur skollið á og oftsinnis hefur verið tekist á um hernaðarmál, s.s stækkun Nato sem mætti á sínum tíma andstöðu að hálfu Frakka og Þjóðverja. Skemmst er einnig að minnast þeirra deilna sem urðu vegna íhlutunar Nato í Bosníu.
Bandaríkjamenn hafa þó alltaf átt góðan bandamann í Bretum sem oftast fylgja þeim að málum. Afstaða Breta til utanríkismála og til utanríkisstefnu Bandaríkjanna í seinni tíð er oft talin hafa mótast á 6. áratugnum. Árið 1956 réðust Ísraelsmenn á Egyptaland með stuðningi frá Bretum og Frökkum eftir að Egyptar, undir stjórn Nasser, höfðu þjóðnýtt Súezskurðinn. Í þessu stríði tóku Bandaríkjamenn afstöðu með Egyptum og sigldu herskipum sínum innfyrir skip Breta og Frakka sem drógu sig þá í hlé og í kjölfarið hörfuðu Ísraelsmenn frá Egyptalandi. Þessir atburðir mótuðu aftöðu Breta og Frakka á ólíkan hátt. Annars vegar hafa Bretar ávallt fylgt Bandaríkjamönnum að málum og lítið gert án þess að leita eftir stuðningi þeirra fyrst. Hins vegar urðu Frakkar mjög ósáttir og hafa í kjölfarið oftar en ekki verið Bandaríkjamönnum óþægur ljár í þúfu.
Í maí á næsta ári mun Evrópusambandið taka miklum breytingum. Mörg hinna nýju ríkja sambandsins frá mið og austur Evrópu hafa notið víðtæks stuðnings frá Bandaríkjunum að undanförnu í formi efnahagsaðstoðar, en einnig pólitísks stuðnings vegna inngöngu í Nato og ESB. Segja má að afstaða þessara ríkja gagnvart Bandaríkjamönnum sé mun jákvæðari en t.d. afstaða Frakka og Þjóðverja. Bretar munu því ekki verða jafn einangraðir eins og þeir hafa stundum verið í Evrópuklúbbnum og ljóst er að það gæti reynast Bush og félögum í Washington auðveldara að sækjast eftir stuðningi Evrópumanna en verið hefur.
Þessum breytingum í Evrópu er vert að gefa gaum. Þó skal ekkert fullyrt um það hér hvort þetta hugarfar nýju ESB þjóðaðanna gagnvart Bandaríkjunum muni koma til með að endast, en eins og staðan er nú er ljóst að velvild þeirra og skilningur á sjónarmiðum Bandaríkjamanna er fyrir hendi nú og verður líklega áfram í nánustu framtíð.
Í raun má segja að gamla Evrópa eins og við þekkjum hana muni líða undir lok á næsta ári og ný mun fæðast. Nýtt pólitískt valdajafnvægi gæti verið að myndast innan ESB sem mun koma til með að hafa áhrif á gang heimsmála í framtíðinni.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007