Í gær fékk Arnþrúður Karlsdóttir þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni Sögu til sín tvo gesti. Þetta voru tveir ungir þjóðernissinnar sem hyggjast ásamt einhverjum skoðanabræðra sinna bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Gestirnir voru þeir Hlynur Freyr Vigfússon, sem var dæmdur vegna niðrandi ummæla sinna um hörundsdökkt fólk í viðtali við DV og Jón Ingi Sveinsson, fulltrúi framboðsins í Suðurkjördæmi.
Aðspurðir um helstu baráttumálin nefndu þeir auðvitað fyrst „blessuð útlendingamálin” en auk þess sögðust þeir hafa lausn á fiskveiðistjórnunarkerfinu, vilja bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja, bæta fjölskylduna, fá meiri peninga í lögregluna og leysa eiturlyfjavandann. Metnaðarfull markmið hjá strákunum, þótt þeir hafi ekki farið nákvæmlega í skýringar á nema tveimur fyrsttöldu málunum.
Þeir vildu afnema alla kvóta í fiskveiðum, og reyndar landbúnaði líka. Að vísu væri það harkaleg aðgerð, svona í einni svipan og þýddi væntanlega gjaldþrotahrinu í sjávarútvegi, en réttlætið skyldi sigra. Þeir voru með þetta allt á hreinu, enda margir félagar þeirra á sjó eftir því sem þeir sögðu.
Þeir nefndu ekki sérstaklega að þeir ættu marga útlendinga fyrir vini, en þeir höfðu engu að síður skýra stefnu í sínum helsta málaflokki, útlendingamálum. Samkvæmd stefnuskránni ætla þeir að hindra frekari innflutning á fólki öðrum en evrópubúum, þótt reyndar væru Austur-Evrópubúar ekki sérlega æskilegir. Það ætti að loka fyrir innflutning fólks frá Afríku og Asíu og að mestu frá Austur-Evrópu, Ísland ætti að mestu leyti að vera fyrir Íslendinga.
Þeir höfðu helst tvennt sér til stuðnings í málflutningnum. Að reynsla annarra landa af „þessu fólki” sé slæm og að fólk frá þessum svæðum ætti verra með að aðlagast aðstæðum á Íslandi. Á seinni röksemdinni var önnur hlið; nefnilega að fólk frá þessum svæðum vendist svo góðu hér á Íslandi að það væri svo erfitt fyrir það að snúa aftur til upprunalandsins.
Þannig eiga þeir væntanlega við að fólk úr þriðja heiminum eigi ekkert með að koma til Íslands, þau venjist hér allt of góðum aðstæðum og það verði alveg ómögulegt þegar það snýr aftur í „moldarkofana”. Hér sé ég ekki betur en skíni í þá eigingirni og fáfræði sem einkenndu nasista Þýskalands á fjórða og fimmta áratugnum og brutust út í mannvonsku og ódæðisverkum. Ég ætla þessum piltum auðvitað ekki slíka hluti, en hér eru sömu hvatir að baki og verið að bera neista að sama bálkesti og þá. Hvers vegna eigum við ekki einmitt sérstaklega að bjóða fólk velkomið til Íslands sem annars staðar þyrfti að búa við örbyrgð og skort á tækifærum til að láta drauma sína rætast?
Þriðja atriðið sem þeir félagar nefndu var atvinnuleysi. Erlent vinnuafl streymir sem aldrei fyrr til landsins, einmitt nú þegar fyrirtæki eru að segja upp fólki og verða gjaldþrota. Pawel Bartoszek fjallaði fyrir nokkru um þetta mál hér á Deiglunni og Andri Óttarsson skrifaði síðar um könnun sem gerð var í Bretlandi á málefnum innflutts vinnuafls sem sýnir hlutina í öðru ljósi en þjóðernissinarnir varpa á þá.
Ég fagna umræðu um þessi mál, því aðeins með umræðunni getum við kveðið fáfræðipúkann í kútinn. Þar er ábyrgð fjölmiðlamanna mikil og ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á frammistöðu Arnþrúðar Karlsdóttur sem spyrils í þættinum. Um atvinnuvanda vegna útlendinga og að það væru Íslendingarnir sem lentu á atvinnuleysisbótum sagði hún að það væri jú „gott og gilt sjónarmið”. Nú veit ég ekki hvort Arnþrúður aðhyllist sjálf stefnu hins nýja framboðs eða veit hreinlega ekki betur hef ég ekki hugmynd um. En það sýnir í það minnsta að við verðum öll að taka þátt í umræðunni af krafti. Við þekkjum söguna.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021