Í fyrstu virðist myndin vera áróðursmynd gerð með það markmið að gera ferðirnar til tunglsins tortryggilegar. Myndin sver sig að sumu leyti í ætt við áróðursmyndir úr Seinni heimstyrjöldinni en er samt frekar uppbyggð eins og sakamálasaga þar sem einn atburður leiðir til þess næsta. Myndin hefst á vangaveltum um hvernig Stanley Kubrick fékk rándýra kvikmyndavél frá NASA og svo er spunnið frá því. Ólíklegustu atburðir eru látnir vera afleiðing af samsærinu til dæmis Víetnamstríðið.
Á yfirborðinu fjallar myndin um samsæriskenningar þess efnis að menn hafi í raun aldrei komið til tunglsins án þess þó að það sé sagt berum orðum. Því er haldið fram að fyrsta tungllendingin eins og heimsbyggðin upplifði hana hafi í raun verið Hollywood framleiðsla og hafi verið sviðsett.
Uppistaða myndarinnar eru brot úr viðtölum sem tengjast tunglferðum ekki neitt og eru tekin úr samhengi. Þetta eru viðtöl við þekkta menn á borð við Henry Kissinger, Donald Rumsfeld, Richard Helms, Alexander Haig og fleiri sem sum hafa nýlega verið sýnd í sínu rétta samhengi í þáttum um kalda stríðið. Gömlum myndskeiðum, leyniskjölum og þess háttar er fléttað við viðtölin þannig úr verður ein allsherjar samsæriskenning.
Viðtalsbrotin eru klippt saman á skemmtilegan hátt við frásögn sögumannsins máli hans til stuðnings. Fyrrverandi CIA njósnarar og starfsmenn NASA sem búa yfir vitneskju um yfirhylminguna eru kynntir til sögu en þeir eru í raun leikarar. Með þessum hætti er blandað saman staðreyndum við hreinan skáldskap og vangaveltur þannig að oft er erfitt að greina á milli hvað sé rétt og hvað ekki.
Framsetning myndarinnar er bráðsnjöll því þótt sagan sé sögð á frekar trúverðugan hátt efast maður óhjákvæmilega um að rétt sé sagt frá og einhvern veginn yfirfærist þessi vafi yfir á tunglendinguna sjálfa og hvort rétt hafi verið greint frá henni upphaflega. Myndin er vel gerð og jafnvel nokkuð sannfærandi á köflum enda erfitt fyrir áhorfandann að leggja mat á staðreyndir þegar þær eru settar fram með þessum hætti.
Hugmyndin sem reynt er að koma til skila er þó dýpri en umfjöllunarefnið eitt og sér. Það sem gerir þessa mynd sérstaka er hvernig sagan er sögð. Hugmyndin með myndinni er að það skipti miklu hvernig efni er sett fram, í hvaða samhengi það sé og í hvaða umgjörð. Þetta er svo sem engin ný sannindi en myndin nálgast viðfangsefnið frá skemmtilegu sjónarhorni með því að vera sjálf uppspuni eins og viðfangsefnið. Þetta er gert til þess að sýna fram á að mikilvægt sé fyrir áhorfandann að efast og beita gagnrýnni hugsun til að komast að sannleikanum.
Ég er ekki hrifinn af því að sjónvarpið kynnti myndina sem heimildarmynd því það er hún náttúrlega ekki. En hvað á að kalla á svona mynd? Hún er ekki beinlínis skemmtiefni en hún minnti einna helst á eftirminnileg atriði úr áramótaskaupinu 1985 þar sem viðtöl voru tekin úr samhengi meðal annars við Albert Guðmundsson og klippt saman við annað efni. Kannski væri réttast að kalla þetta heimildarskaup.
Þegar myndin var sýnd í Frakklandi þá var fólki gerð fyrirfram grein fyrir því að myndin væri ekki hefðbundin heimildarmynd. Þrátt fyrir það hófst umræða þar um hvort rétt hafi verið að sýna hana og í framhaldi tók BBC þá ákvörðun að sýna ekki þessa mynd. Ég hallast að því að það hafi verið röng ákvörðun hjá BBC en það er vafasamt að Ríkissjónvarpið sýni þessa mynd undir þeim formerkjum sem það gerði. Auðvitað hefur þetta áhrif á trúverðugleika Ríkissjónvarpsins að sýna mynd eins og þessa undir fölsku flaggi.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004