Um helgina hringdi Fréttablaðið í 600 manns og spurði um afstöðu þeirra til íslenskra stjórnmálaflokka. Niðurstöður könnunarinnar hljóta að vekja mikla athygli. Samkvæmt þeim er Samfylkingin nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins og nýtur fylgis um 39% kjósenda, en Sjálfstæðisflokkurinn næst stærstur með fylgi 37% kjósenda. Vinstrigrænir og Framsóknarmenn skipta svo á milli sín hreytunum.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sjálfu sér ekki í neinu sögulegu lágmarki í þessari könnun, álíka og hann fékk í kosningunum 1991. Framsóknarflokkurinn er hins vegar búinn að vera samkvæmt könnuninni og fylgismenn hans virðast gengnir Samfylkingunni á hönd. Vinstrigrænir hökta áfram sem jaðarflokkur og Frjálslyndir eru langt frá því að ná lágmarksfylgi á landsvísu.
Ef þessi könnun endurspeglar í raun hið pólitíska landslag ber að taka henni sem miklum tíðindum. En það er ansi stórt „ef“. Úrtakið er samkvæmt öllum hefðbundnum kenningum „marktækt“, þ.e. 600 manns skipt jafn milli höfuðborgar og landsbyggðar. Hins vegar ber að taka þessari skoðanakönnun með miklum fyrirvara – hugsanlega meiri fyrirvara en öðrum.
Í fyrsta lagi hefur umræða um Samfylkinguna verið mjög mikil síðustu daga og mikið „hæp“ í kringum framboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Alþingis. Slík umræða og stemmning hefur alltaf áhrif á fylgi í skoðanakönnunum en skýrir þó ekki að fullu þá miklu sveiflu á fylgi Samfylkingarinnar sem könnunin bendir til að hafi orðið.
Í öðru lagi er könnunin framkvæmd af aðila sem hefur litla sem enga reynslu í framkvæmd slíkra kannana og því ómögulegt að segja til um gæði könnunarinnar sem slíkrar út frá faglegu sjónarhorni. Ýmislegt þykir undarlegt í niðurstöðum könnunarinnar. Þannig fær Sjálfstæðiflokkurinn stuðning rúmlega 43% kjósenda í Reykjavík en aðeins 23% á landsbyggðinni. Fylgi Samfylkingarinnar er hins vegar jafnt á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, um 39%. Samkvæmt því virðist Samfylkingin vera að tapa fylgi í Reykjavík miðað við nýlegar kannanir en vinna stórsigra úti á landi. Það þykir með nokkrum ólíkindum.
Í þriðja lagi virðist svo sem hefðbundnum vinnubrögðum varðandi framkvæmd skoðanakannana hafi verið varpað fyrir róða því hvergi er getið um það hversu hátt hlutfall þeirra 600, sem hringt var í, önsuðu símanum. Sú viðmiðunarregla að tryggja 70% svarhlutfall og mun það t.a.m. vera regla hjá Gallup að gefa ekki út niðurstöður fyrr en svarhlutfall er komið yfir þá tölu eða nálgast hana mjög. Taka ber fram að svarhlutfall er ekki sama tala og „þeir sem afstöðu tóku“ en það að segjast vera óákveðin telst vera svar. Í könnunum Gallup tekur venjulega nokkuð marga daga að tryggja 70% svarhlutfall. Það að Fréttablaðið nefni ekki svarhlutfall í niðurstöðu sinni bendir annað hvort töluverðrar vankunnáttu í aðferðarfræði skoðanakannana eða til þess að talan sé svo lág að aðstandernir skammist sín fyrir hana.
Nú er það algengt að fjölmiðlar láti gera fyrir sig kannanir sem þeir hafa síðan frumkvæði að að birta og „skúbba“ þannig niðurstöðunum. Þá er um það að ræða að fjölmiðillinn hefur faglega hagsmuni af gerð könnunar, þ.e. hann fær aðgang að fréttaefni sem enginn annar hefur.
Það er hins vegar stór munur á því, frá hlutlægu sjónarhorni, hvort könnunin sé gerð af viðkomandi fjölmiðli eða hvort viðkomandi fjölmiðill láti gera fyrir sig skoðanakönnun og leiti til viðurkenndra og óháðra aðila um gerð hennar. Þegar fjölmiðill hefur með bersýnilegum hætti tekið afstöðu í tilteknu álitaefni og kemur síðan sjálfur fram sem rannsakandi um hug fólksins til þess álitaefnis, er mjög auðvelt að draga í efa hlutlæga stöðu hans.
Morgunblaðið hefur t.a.m. í áranna rás leitað til utanaðkomandi fagaðila, sem hafa sérfræðiþekkingu og eru almennt viðurkenndir, um gerð fjölmargra og margs konar skoðanakannana. Þegar sá háttur er hafður á, er enginn ástæða til að draga í efa að hlutlægni sé til staðar. Það er enn fremur til þess fallið að styrkja trúverðugleika könnunarinnar sem slíkrar, því að fjölmiðlar eru jú ekki skoðanalausir.
Heldur kannski einhver að Morgunblaðið sé verr í stakk búið en DV og Fréttablaðið til að framkvæma sínar eigin kannanir? Nei, líklega er það þvert á móti. Þar á bæ virðast menn hins vegar gera sér betur grein fyrir hlutverki sínu og aðgæta betur sína hlutlægu stöðu.
Sama hátt hefur Ríkisútvarpið haft á. Þótt margir séu þeirrar skoðunar að fréttastofu ríkisútvarpsins sé fremur í nöp við Sjálfstæðisflokkinn en ekki, þá myndi jafnvel ekki Vefþjóðviljanum detta í hug að vefengja þær kannanir sem fréttastofan fær óháða aðila til gera fyrir sig. Tæki fréttastofan sjálf hins vegar upp á slíku, þá er hætt við að tvær grímur rynnu á einhverja.
Það rýrir því óneitanlega áreiðanleika þessarar könnunar Fréttablaðsins, að það er blaðið sjálft sem stendur að henni, framkvæmir hana, reiknar út niðurstöður og túlkar; blaðið sem í skrifum sínum hefur ekki dregið dul á andstöðu sína við núverandi ríkisstjórn og blaðið sem er í eigu manna sem í viðtölum hafa lýst þeirri einlægu þrá sinni að koma núverandi stjórnvöldum frá.
Niðurstaða könnunarinnar kemur sér óneitanlega mjög vel fyrir Samfylkinguna nú þegar líður að mánaðarlegum þjóðarpúlsi Gallup. Gæti verið að helsti málsvari Samfylkingarinnar og um leið svarinn andstæðingur núverandi stjórnarflokka hafi hér spilað út sínu stærsta trompi? Allir vita að skoðanakannanir eru ekki síður skoðanamótandi en skoðanalýsandi. Það þarf enga sérfræðinga til sjá að svona kúvending mun hafa áhrif á svör margra væntanlega þjóðarpúlsi Gallup.
Lesendur Fréttablaðsins verða einfaldlega að ganga út frá því að fagleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð við gerð könnunarinnar og að efni hennar sé ekki „fabrikerað“ á einn eða neinn hátt. Þeir sem starfa á Fréttablaðinu hafa m.a.s. svarið þess dýran eið, og auglýst hann fyrir alþjóð, að gæta hlutlægni í störfum sínum og vera heiðarlegir í hvívetna. Þeir verða því að minnsta kosti að njóta vafans í þessu tilviki.
En svo vikið sé aftur að könnuninni sjálfri, niðurstöðum hennar og þýðingu þeirra (og göngum út frá því hún lýsi raunverulega stöðunni), þá vakna strax spurningar um framhaldið.
Niðurstaðan er auðvitað áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem borið hefur höfuð og herðar yfir aðra íslenska stjórnmálaflokka lengst af þegar kemur að fylgi og vinsældum. Verði niðurstaða kosninganna á þá leið sem könnunin segir til um, þá er einsýnt að Sjálfstæðisflokkurinn gæti varla gert kröfu um forsæti í næstu ríkisstjórn, þ.e. ef til þess kæmi að honum yrði falið stjórnarmyndunarumboð. Fylgið er þó á svipuðum slóðum og í kosningunum 1991 þegar flokkurinn var talinn ótvíræður sigurvegari kosninganna og tók að sér stjórnarmyndun. Það breytir hins vegar öllu að nú er annar flokkur stærri. Það yrði þó að teljast býsna góður árangur hjá Sjálfstæðisflokknum að vera um eða yfir kjörfylginu frá 1991 í næstu kosningum, eftir tólf ára samfellda stjórnarsetu og tólf ár í forsæti ríkisstjórnar. Ef sú verður niðurstaðan og Samfylkingin nær ekki nema 32-35% fylgi í kosningunum, þá verður staða Sjálfstæðisflokksins nægilega sterk til að standa að myndun næstu ríkisstjórnar.
Samfylkingin fær með þessari könnun sannkallaða og kærkomna þrettándabombu. Fylgi hennar er í sögulegu hámarki og víst er að íslenskir jafnaðarmenn snerta ekki jörðina fram eftir vikunni. Það verður hins vegar erfitt fyrir Samfylkinguna að þurfa að eiga við málin þegar og ef fylgið dalar eftir því sem nær líður kosningum. Menn muna auðvitað Þjóðvakabóluna sem sprakk á síðustu vikunum fyrir kosningarnar 1995. Hins vegar er könnunin mjög mikilvæg fyrir Samfylkinguna vegna hinna skoðanamótandi áhrifa sem hún gæti haft og mun eflaust hafa. Næstu vikurnar verður vafalítið mikið talað um „kröfu þjóðarinnar“ og „ákall fólksins“ til Samfylkingarinnar og einkum Ingibjargar Sólrúnar. Þannig mun þessi könnun hjálpa Samfylkingunni við að treysta framboð sitt og ekki síst gefa flokknum mikla möguleika á að gera vel í næsta þjóðarpúlsi Gallups.
Hvað Framsóknarflokkinn varðar, þá er ljóst að lífróður er framundan, þ.e.a.s. ef marka má niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Framsóknarflokkurinn er einfaldlega í útrýmingarhættu. Spurningin er sú, hvernig forysta flokksins bregst við. Ein leið er sú að hefja hefðbundin pólitísk yfirboð af fullu afli: Tvo milljarða í fíkniefnamálin í staðinn fyrir einn síðast, 20.000 ný störf á kjörtímabilinu o.s.frv., o.s.frv. Formannsins Halldórs Ásgrímssonar býður afskaplega erfitt verkefni. Nái Halldór að bjarga stöðunni og koma flokknum á skrið væri það gríðarlegur persónulegur sigur fyrir hann og hefði mikla þýðingu fyrir hans pólitísku stöðu og hugsanlegt tilkall til embættis forsætisráðherra. Ef skipstjóranum hins vegar mistekst, þá er deginum ljósara að hann sekkur til botns með Framsóknarskútunni.
Vinstrigrænir eru í fremur erfiðri stöðu í ljósi þessarar könnunar. Á sama hátt og Sjálfstæðisflokkurinn er þeirra eigið fylgi ekki mesti hausverkurinn heldur fylgi Samfylkingarinnar. Þeir mega nú horfa upp á kratana sigla fram úr og taka við krúnu íslenskra vinstrimanna. Örlög vinstrigrænna virðast ætla að verða þau að gegna hlutverki lítils, einangraðs og öfgafulls vinstriflokks.
Frjálslyndir eru á góðri leið með að þurrkast út. Samkvæmt könnunninni mælast þeir með rúmlega 2 prósent fylgi sem er langt undir tilskildu lágmarki á landsvísu til að fá uppbótarþingmann kjörinn. Samt sem áður er þeim gefinn einn þingmaður í skýringum Fréttablaðsins með könnuninni. Annað hvort er hér um hreina vanþekkingu að ræða af hálfu skýrenda blaðsins eða þá að Frjálslyndi flokkurinn hafi hlotið mjög umtalsvert fylgi í einu kjördæmi sem dygði honum til að ná inn manni þar. Þá vaknar hins vegar spurning um skekkjumörk sem hljóta að vera mjög há þegar kemur að einstökum kjördæmum þegar heildarúrtakið er 600 manns á landinu öllu.
Í öllu falli má segja að vopnaskakið fyrir komandi kosningar sé raunverulega hafið. Fyrsta skotinu hefur verið hleypt af og allt útlit er fyrir gríðarleg pólitísk átök á þeim rétt rúmlega fimm mánuðum sem eru fram til kosninga. Skammtímaáhrif Fréttablaðskönnunarinnar verða væntanlega nokkur vindur í seglin fyrir Samfylkinguna en spurning er hvort sá byr endist fram á vor. Sjálfstæðisflokkurinn á mikla varnarbaráttu fram undan og spurning fyrir hann hvort sókn sé ekki besta vörnin. Framsóknarflokkur rær lífróður og Vinstrigrænir eiga nú í þeirri tilvistarkreppu sem Samfylkingin átti áður. Mismunandi hlutskipti flokkanna og öll teikn á lofti um feikiskemmtilegan kosningavetur.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009