Það er einkennileg blanda af smæð landsins og sérstökum útvarpslögum sem veldur því að Norðurljós kjósa að útvarpa BBC World á FM 90.9. Eftir mikla yfirtökuhrinu var íslenskum útvarpsstöðvum fækkað talsvert. Útvarpslögin segja þó til um það að ef bylgjulengd er ekki í notkun skuli henni endurúthlutað. Til að koma í veg fyrir það þarf að senda út eins ódýrt efni og hægt er og BBC World, sem kostað er af breskum skattgreiðendum, þjónar þessum tilgangi ágætlega.
Kanaútvarpið, eða „Thunder fifteen-thirty“, er aðgengilegt á AM 1530 einungis vegna landfræðilegra aðstæðna. Stöðin, sem rekin er af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, predikar boðskap heimsveldisins, en markhópurinn er þeir Bandaríkjamenn sem staðsettir eru á herstöðinni í Keflavík. Stöðin næst þó ágætlega í Reykjavík og veitir skemmtilega innsýn í Bandaríska menningu, lífið á vellinum, og ekki síst hvaða eiginleika og afstöðu varnarmálaráðuneytið leggur mesta áherslu á að rækta hjá hermönnum sínum.
Sú afstaða kristallast í „reiða repúblikananum“ Rush Limbaugh, sem leggur mikla áherslu á að Bandaríkjamenn láti aðrar þjóðir ekki hafa of mikil áhrif á þeirra aðgerðir, hvar svo sem þær eiga sér stað í heiminum. Í umfjöllun sinni um framlag Rússa til hernaðaraðgerðanna í Afganistan dró hann ekki úr fyrirlitningu sinni á þessum kerlingum, sem ekkert gætu. Þeir skyldu halda sig innandyra þegar Bandaríkjamenn tækju sig til við að sprengja allt í loft upp. Á honum mátti einnig heyra að hann tæki það ekki nærri sér þótt einhverjir Rússar yrðu fyrir sprengjum, þetta væru jú allt saman kommúnistar hvort sem er.
Einnig eru sendar út gagnlegar upplýsingar fyrir fjölskyldufólk, næringarráðgjöf og ráðleggingar um barnauppeldi. Dr. Laura Schlessinger ræður fólki heilt í persónulegum vandamálum og leggur mikla áherslu á gildi fjölskyldunnar, skyldu mannsins til að ala önn fyrir fjölskyldunni og skyldu konunnar til að fylgja sínum manni þangað sem skyldan býður.
Þegar skipt er af kananum yfir á BBC slær það mann sterklega hvað það er sem virðist skipta breska heimsveldið mestu máli. Það er Krikket. Daginn út og inn er sagt frá Krikketleikjum hér og þar um fyrrverandi nýlendur Breta. Í tónlistarþáttum er svipað uppi á teningnum. Tónlistarmenn frá Senegal og öðrum Afríkuríkjum eru þar iðulega ofar á vinsældalistum en U2 og aðrar sveitir sem við vesturlandabúar þekkjum betur.
Ráðgjöf um læknishjálp fyrir fólk sem hefur ekki efni á að fara til læknis er einnig mikilvægur þáttur í dagskránni. Það er nokkuð sérstakt fyrir íslending að heyra um hvernig fyrirbyggja má hörgulsjúkdóma, eða bregðast við sykursýki þegar ekki eru til peningar til að kaupa lyf.
Það er fróðlegt fyrir alla að heyra mismunandi áherslur og afstöðu annarra þjóða og þjóðfélagshópa. Með tilkomu netsins hefur þetta orðið auðveldara en áður, en þó er engin ástæða til að leiða hjá sér þá möguleika sem bjóðast á hinum gamaldags ljósvakamiðlum.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020