Gengið hefur verið frá því að Landsbankinn muni verða að mestu í eigu Samson hópsins (um 45%) en meiri óvissa ríkir um fyrirhugaða einkavæðingu á Búnaðarbankanum. Það er eins og enginn viti almennilega hver muni að lokum hreppa Búnaðarbankann og hvað þá heldur hvaðan nauðsynlegt fjármagn mun koma til að ganga frá kaupunum. Miklar sviptingar hafa átt sér stað innan þess hóps, sem einkavæðinganefnd gekk til viðræðna við um kaupin, sem lýsa sér í tilfærslu á bréfum í VÍS og fleiri góðum, framsóknvarvænum félögum. Þó má telja fullvíst, sama hvaðan fjármagnið kemur, að Búnaðarbankinn mun verða eftirsóttur kostur til sameininga og frekari samþjöppunar á fjármálamarkaði. Samkeppnisráð kom á sínum tíma í veg fyrir sameiningu LÍ og BÍ á þeim forsendum að úr yrði einn, allt of stór og markaðsráðandi banki. Margt hefur gerst síðan þá og t.a.m. hafa umsvif og umfang Kaupþings margfaldast svo að ekki er augljóst að samkeppnisráð kæmist að svipaðri niðurstöðu í dag.
Það er ljóst að Íslandsbanki ætlar ekki að sitja á hakanum í þessum efnum enda má færa rök fyrir því að hann sé best búinn íslenskra fjármálastofnana undir sameiningar eftir að hafa gengið í gegnum nokkrar slíkar um árin. Auk þess lýsti Valur Valsson, annar forstjóra Íslandsbanka, því yfir í viðtali við tímaritið Ský fyrir jól að Íslandsbanki hygðist taka fullan þátt í þeirri endurskipulagningu sem væri framundan á fjármálamarkaði. Íslandsbanki og Búnaðarbankinn gætu átt vel saman undir einni sæng. Augljós sparnaður næðist t.a.m. í útibúaneti en svo má benda á fyrirtæki eins og Glitni, í eigu Íslandsbanka og Lýsingu í eigu Búnaðarbanka sem myndu passa vel saman. Stóra spurningin er Samkeppnisráð sem gæti hafnað sameiningu á sömu forsendum og við Landsbankann forðum. Niðurstaðan gæti orðið skilyrt sameining þar sem ákveðnir hlutar bankanna yrðu að vera reknir sem sér einingar með annarri eignaraðild, t.a.m. Glitnir og Lýsing.
Slík niðurstaða gæti opnað leiðir t.a.m. fyrir SPRON um að kaupa Glitni og Lýsingu sem eru í sjálfu sér ekki svo ólík Frjálsa Fjárfestingabankanum sem SPRON keypti á síðasta ári. Ljóst er að SPRON þarf að stækka til að standast samkeppnina á markaðinum og þar sem búið er að skjóta áformum um hlutafjárvæðingu á frest og að ný lög auðvelda Sparisjóðunum ekki að sameinast öðrum fjármálastofnunum gæti þetta verið leið fyrir SPRON til að vaxa, þ.e.a.s. ef þeir hafa efni á því.
Hafi Kaupþingsmenn hug á því að færa enn frekar út kvíarnar á Íslandi og fara út í almenna viðskiptabankaþjónustu væri einfaldast og hagkvæmast fyrir þá að sameinast núverandi viðskiptabanka. Þar koma til greina Búnaðarbankinn, Landsbankinn og hugsanlega SPRON. Líklegt má telja að það hafi verið ætlun Kaupþings að kaupa SPRON, á síðasta ári, ef áform Starfsmannasjóðs SPRON hefðu náð fram að ganga. En þar ætlaði Kaupþing að vera aðalfjármögnunaraðilinn. Þetta gæti verið erfitt samkvæmt nýju lögunum þannig að Kaupþingsmenn horfa kannski frekar í átt að Búnaðar- eða það sem er líklegra Landsbankanum. Í því samhengi má benda á ummæli Kára Stefánssonar í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag en þar spáði hann því, í viðurvist Björgólfs Thors Samsonarmanns, að Landsbankinn yrði seldur á árinu. Viðbrögð Björgólfs bentu til þess að þetta væri hlutur sem hann vildi, í það minnsta, ekki útiloka.
Engin er spámaður í eigin föðurlandi, var sagt forðum. Þó undirritaður gangi aldrei í slíkri brók, hvorki eigin né annarra, er ljóst að vangavelturnar hér að ofan gætu reynst eintóm fásinna þegar uppi er staðið. Allavega verður spennandi að fylgjast með því sem mun gerast á árinu, hvort sem Íslandsbanki og Búnaðarbankinn munu mynda Ísbúnaðarbankann, Kaupþing og Landsbankinn, Landsþing eða Kaupþing og SPRON gamla góða KRON.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008