ESB-árið

Til stendur að halda tíu ESB-tengdar þjóðaratkvæðagreiðslur í Evrópu á næsta ári. Þar snúast níu um inngöngu ríkis inn í ESB og ein, sú sænska, um upptöku Evrunnar. Það má því ætla að næsta ár verði ár mikilla Evrópuumræðna hér á landi og skoðanaskiptin eigi eftir að setja mikinn svip á kosningarnar í vor.

Á fundi ESB ríkja í Kaupmannahöfn 13. desember var ákveðið að bjóða tíu ríkjum að ganga inn í sambandið frá 1. maí 2004. Þetta voru Eystrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen; Pólland, Tékklandland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Malta og Kýpur. Rúmenía og Búlgaría eru aftar í biðröðinni og almennt talið raunhæft að þau geti fengið inngöngu árið 2007 á meðan að Tyrkir þurfa að bíða enn um sinn eftir að formlegar aðildarviðræður hefjist.

Af þeim tíu tilvonandi aðildarríkjum sem geta hlotið inngöngu í fyrstu lotu stækkunar hafa hafa öll nema eitt, Kýpur, ákveðið að leggja inngöngu undir dóm þjóðarinnar. Líklegt er að Malta ríði á vaðið. Upphaflega stóð til að kjósa jafnvel í janúar en nú þykir mars líkleg dagsetning.

Ákvörðun dagsetningar er nefnilega fjarri því að vera einungis tæknileg ákvörðun heldur getur hún haft, a.m.k. að mati stjórnmálamanna, töluverð áhrif á niðurstöður kosninga. Þannig hafa þau ríki þar sem stuðningur hefur mælst hár að undanförnu reynt að setja niður atkvæðagreiðslurnar tiltölulega snemma á árinu og vonast þannig eftir stuttri kosningabaráttu með minni hættu á (óhagstæðum) fylgissveiflum. Á hinn bóginn hafa ríki þar sem stuðningur hefur mælst lágur reynt að fresta sínum þjóðaratkvæðagreiðslum fram á haust með von um að röð sigra Evrópusinna yfir vor- og sumarmánuðina gefi baráttunni heima byr undir báða vængi.

Upphaflega stóð til dæmis til að Eystrasaltsríkin myndu hafa samráð um ESB-kosningar og áttu þær að fara fram í águst. Hins vegar hefur stuðningur við ESB-aðild í Litháen verið töluvert meiri að undanförnu en í hinum tveimur og hafa Litháir af þeim ástæðum flýtt sínum kosningum til 11. maí. Eistar hyggjast kjósa 14. september, sama dag og Svíar greiða atkvæði um Evruna en Lettar munu ganga að kjörborðinu sex dögum síðar, 20. september.

Vysehrad-löndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland höfðu ákveðið að hafa samráð um atkvæðagreiðslurnar, þ.a. fyrst sé kosið í því ríkinu með mestan ESB-stuðning og svo koll af kolli. Það samkomulag virðist ætla að halda. Ungverjar munu kjósa 12. apríl, Slóvakar 5.-6. júní, Pólland hefur ekki ákveðið dagsetninguna en 8. júní þykir líklegur og Tékkar ganga að kjörborðinu dagana 15.-16. júní.

Mestu áhyggjur stjórnvalda í Póllandi og Tékklandi felast ekki í því að ekki sé nægjanlegur stuðningur fyrir aðild heldur að kosningaþátttaka verði ekki næg. Áhugaleysi kjósenda hefur verið mikið vandamál í þeim löndum á undanförnum árum, kosningaþátttakan í Póllandi oftast rétt slefar yfir 40%. Til að auka hana hafa Tékkar ákveðið að kjósa tvo daga í röð og Pólverjar hafa verið að gæla við sömu hugmynd. Þá hefur jafnvel verið nefndur sá möguleiki að hafa kjörstaði opna í 48 tíma samfleygt til að fólk sem vinnur um helgar eigi auðveldara með að kjósa. Margir hafa þó lagst gegn þeirri hugmynd því þeir óttast að kosningasvik geti átt sér stað í skjóli nætur.

Í öllu falli er ljóst að næsta ár verður mjög spennandi fyrir álfuna alla og fróðlegt verður að fylgjast með hvaða áhrif úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna í A-Evrópu munu hafa á Evrópuumræðuna hér á landi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.