Tíbetar trúa á hina eilífu hringrás sem felst meðal annars í því að trúarleiðtogar þeirra endurfæðast.
Eins og Dalai Lama, sem er leiðtogi þjóðarinnar, er Panchen Lama trúarlegur kennari tíbetsku þjóðarinnar. Panchen Lama er valinn af Dalai Lama og Dalai Lama er valinn af Panchen Lama þannig hefur hringurinn haldist lokaður í aldir.
Þegar 10. Panchen Lama lést árið 1989 var fljótlega farið að leita að næsta Panchen Lama. 6 árum seinna fannst hann – drengur að nafni Gedhun Choekyi Nyima. Skömmu síðar var hann, 11. Panchen Lama, horfinn. Í fyrstu vildu kínversk stjórnvöld ekki kannast við neitt þrátt fyrir ítrekaða eftirgrenslan. Svo einn dag, um ári síðar, viðurkenndu kínversk stjórnvöld að þau vissu hvar hann og fjölskylda hans væri niðurkomin og hefðu vitað það allan tímann. Þá voru þau búin að búa til þá sögu að foreldrar drengsins hefðu beðið stjórnvöld um að fela drenginn því þau óttuðust um að Tíbetar ætluðu að gera honum mein. Í millitíðinni voru kínversk stjórnvöld búin að velja annan dreng sem næsta Panchen Lama – annan en Dalai Lama hafði sagt vera hinn rétta! Ekkert hefur spurst til hins rétta Panchen Lama og enn óvíst hvar hann er niðurkominn.
Þessi saga er hræðileg. Það er ömurlegt að hugsa til þess að kínversk stjórnvöld eru að murka lífið úr þjóð sem vill engum illt og gerir engar kröfur aðrar en þær að fá að lifa. Enn ömurlegra er að þau virðast ætla að komast upp með það.
Við á vesturlöndum höfum skyldum að gegna þegar við krefjumst þess að að mannréttindi séu virt og frelsi einstaklingsins sé tryggt. Þegar við föllumst á að aðrir hafi sama rétt og við til frelsis og mannréttinda þá höfum við ríka skyldu að hjálpa þeim sem eru þurfandi og búa ekki við sömu réttinndi og við.
Ég trúi því að einstaklingurinn geti haft áhrif á samfélagið. Ég trúi að allir hafa hlutverki að gegna og eigi að leggja sitt af mörkum til þess að stýra samfélagi okkar í rétta átt. Það er afskaplega mikilvægt að við sýnum að mannréttindabrot séu óásættanleg og verði ekki liðin.
Áhugi alþjóðasamfélagsins á vandamálum Tíbets er lítill, nánast enginn. Það virðist vera að mönnum sé bara nokkuð sama um þessa þjóð eins og þetta dæmi sýnir. Það er aumt að ræna 6 ára barni en er það ekki álíka aumt að sitja aðgerðarlaus hjá og aðhafast ekkert? Vonandi fær þessi sorglega saga gleðilegan endi áður en það er orðið of seint.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004