Það var eitt sem sló mig þegar ég fylgdist með fréttamyndum úr Afganistanstríðinu. Sýnd var upptaka innan úr bandarískri sprengjuþotu. Allar sprengjurnar voru útkrotaðar með myndum og skilaboðum hermanna. Við sem í einfeldni okkar viljum oft trúa að Vesturveldin hái stríð á einhvern göfuglyndari hátt en „villimennirnir“ hljótum að hugsa okkar gang þegar við sjáum slíkar myndir.
Sá sem telur að skilaboð á borð við „DIE SUCKERS“ séu nauðsynlegt skraut á Daisy Cutter sprengju er ekki bara smekklaus. Hann er ógeðslegur. Skilaboðin sýna að manndráp eru ekki aðeins atvinna hans, þau eru hans yndi. Hann hefur unun af þeim. Þess vegna persónugerir hann manndrápin með því að bæta við stuttri orðsendingu ofan á öll megatonnin.
Annað atriði er að menn bera aldrei virðingu fyrir lífi óvinahermanna. Ljósið beinist alltaf að falli meðal óbreyttra borgara eingöngu. Ég veit ekki einu sinni hve margir júgóslavneskir hermenn dóu í seinasta stríði. Menn í herbúningi virðast ekki hafa neinn rétt til lífs. Þegar Júgóslavía gafst upp í kjölfar mikils mannfalls innan hersins sagði Jamie Shea að NATO hafi „burstað þá“.
Vissulega eru hermenn á einhvern hátt „lögmætari“ skotmörk en varnarlaust fólk. En sem talsmaður einstaklingsfrelsis get ég ekki fallist á það að maður sem önnur ríkisstjórn hefur þvingað til að berjast sé sjálfkrafa orðinn réttindalaus skotskífa og fráfall hans orðið eitthvað til gorta sig af og hæðast.
Skilaboðin eru skýr. Stríð eru „kúl“. Það er ekki bara ill nauðsyn að drepa fólk. Það er gaman. Nýlega sá ég myndir frá hernaðaræfingum Bandaríkjahers í Kúveit. Þar hafði einhver málað „ALL THE WAY TO BAGDAD“ á hlaupið og eflaust fundist það gríðarlega kúl.
Í hernum heyrir fólk undir annað fólk. Þeir yfirmenn sem leyfa hermönnum sínum að skemmta sér við morð eru sjálfir að skemmta sér við morð. Sömuleiðis yfirmenn þeirra sem láta slíkt viðgangast. Svona má reka sig upp eftir öllum tignum og stöðum hersins – alla leið til Forsetans.
Allt þetta fólk virðist sem sagt hafa gaman að því að drepa.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021