Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur óumdeilanlega mjög sterka stöðu sem stjórnmálamaður. Hún er vinsæl meðal kjósenda og nýtur mikils álits meðal samherja og fram til þessa óttablandinnar virðingar í röðum flestra andstæðinga sinna.
En hverju á hún þessa sterku stöðu sína að þakka? Því má ekki gleyma að lengst af pólitískum ferli sínum var Ingibjörg Sólrún áhrifalaus mussukerling í Kvennalistanum. Fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins og forvera Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, auk þeirra flokka sem síðar mynduðu Samfylkinguna, var Ingibjörg Sólrún sett á stall, teflt fram í forystu gegn Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.
Hún á því hina sterku pólitísku stöðu sína Framsóknarflokknum og Vinstrigrænum að þakka, að verulegu leyti. Því hefur verið fleygt að R-listinn væri ekkert án Ingibjargar Sólrúnar, að hún sé sameiningartáknið og að borgarbúar hefðu aldrei kosið bandalag þessara flokka án Ingibjargar. Vissulega er margt til í því, en það hefur algjörlega gleymst í þessari umræðu að Ingibjörg Sólrún hefði aldrei orðið neinn bógur í íslenskri pólitík nema fyrir tilkomu R-listans.
Henni var lyft á stall af framsóknarmönnum og vinstrigrænum og af þessum stalli ætlar hún sér nú að herja á þessa flokka um fylgi á vinstrivæng og miðju íslenskra stjórnmála. Þetta er hin grátbroslega staða Framsóknarflokksins í málinu. Eins og Frankenstein bjuggu þeir til „skrýmsli“ sem þeir ráða ekki við og ógnar nú tilveru þeirra í höfuðborginni og þingsæti sjálfs formannsins.
Hitt er svo annað mál, sem einungis framtíðin getur leitt í ljós, hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir haldi pólitískum styrk sínum nú þegar hún hefur bundið trúss sitt algjörlega Samfylkingunni og stungið samstarfsmenn sína og trúnaðarmenn rýtingi í bakið. Það er ekki góður upphafsleikur fyrir forsætisráðherraefnið í þriggja flokka vinstristjórn Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og VG.
Eitt er þó víst, að ekki myndi skorta umfjöllunarefni á Deiglunni eða öðrum fjölmiðlum með þau saman í ríkisstjórn; Ingibjörgu, Steingrím, Össur, Halldór og Jóhönnu…
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021