Talsmenn minni ríkisafskipta er afskaplega í nöp við tekjujöfnun sem fjármögnuð er með skattheimtu. Þeir segja slíka tekjujöfnun vera álíka gáfulega og að pissa í skóinn sinn. Ástæða þess er að hún kemur niður á hagvexti og gerir okkur því öll snauðari þegar til lengri tíma er litið.
Rök af þessu tagi ættu að hljóma nokkuð sannfærandi í eyrum hagfræðimenntaðra. Hagfræðin kennir okkur jú að skattar hafi letjandi áhrif á hagkerfið. Við megum samt ekki gleyma því að þetta eru einungis kenningar.
Ef þær eiga í raun við rök að styðjast ættu gögn um hagvöxt mismunandi landa að sýna að lönd sem reka stærri velferðarkerfi vaxa hægar að öðru jöfnu. Þetta er hins vegar ekki raunin. Þegar tölur um hagvöxt og stærð velferðarkerfa eru rannsakaðar af kostgæfni kemur í ljós að lönd með stór velferðarkerfi vaxa alls ekkert hægar en þau sem aðhyllast lágmarks ríkisafskipti (sjá Lindert, 2002).
Þessi staðreynd vekur upp áleitnar spurningar. Getur verið að það sé ekki rétt að skattheimta hafi letjandi áhrif á hagvöxt? Eða hefur tekjujöfnun einhver önnur jákvæð áhrif á hagvöxt sem vega upp á móti þeim neikvæðu? Þetta eru mikilvægar spurningar sem rannsaka þarf. En meðan við höfum ekki góð svör við þeim þá er einfaldlega ekki unnt að gefa sér að velferðarkerfi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt eins og svo mörgum er tamt að gera í þjóðfélagsumræðunni.
Lindert bendir á athyglisvert mynstur sem hann telur að geti ef til vill að hluta skýrt það að ríki sem reka stór velferðarkerfi skuli vaxa jafn hratt og raun ber vitni. Hann bendir á að slík ríki hafa flest hver notast við mun hagkvæmari skatta en laissez fair ríki. Þau leggja til dæmis lægri skatta á fjármagntekjur og eignir en mörg laissez fari ríki gera. Slíkir skattar eru taldir vera sérlega skaðlegir fyrir hagvöxt.
Munurinn á skattkerfum velferðarríkjanna og hinna sem aðhyllast laissez fair er samt ekki það mikill að hann geti talist sannfærandi skýring á því að velferðarríkin vaxi engu hægar en hin. Og á meðan við höfum ekki betri skýringu hljótum við að vera tortryggin í garð þeirra sem halda því fram eins og heilögum sannleika (og án þess að færa fram tölur máli sínu til stuðnings) að stór velferðarkerfi skaði hagvöxt og að Ísland geti orðið ríkasta land í heimi ef það aðeins lækkar skatta og leggur niður stóran hluta velferðarkerfisins.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009