Netið lýtur að mestu leyti svipuðum reglum og aðrir fjölmiðlar. Þannig verður að telja að löggjöf um meiðyrði, reglur um friðhelgi einkalífs og höfundaréttarlög taki einnig til þess efnis sem finna má á netinu. Hins vegar hefur netið ákveðna sérstöðu sem gerir það að verkum að oft getur verið erfitt að beita þessum reglum.
Eitt erfiðasta úrlausnarefnið varðandi netið er ákvörðun lögsögu; hvaða reglur eigi að gilda varðandi það sem fram fer á netinu og hvaða dómstólar eigi að framfylgja þeim reglum. Netið samanstendur af samtengdum tölvum um allan heim en lögsaga dómstóla er yfirleitt aðeins bundin við tiltekin ríki. Vefsíða getur verið gerð í tilteknu landi, hýst á vefþjóni sem staðsettur er allt annars staðar- og skoðuð í hvaða landi sem er.
Fyrir stuttu felldi Hæstiréttur í Ástralíu úrskurð um lögsögu á netinu varðandi meiðyrðamál. Málið snerist um grein sem birtist á vefsíðu tengdri vef blaðsins Wall Street Journal, sem er í eigu Dow Jones fréttaþjónustunnar. Greinin fjallað um skattamál tiltekins einstaklings sem höfðaði í kjölfarið meiðyrðamál gegn fréttaþjónustunni. Málið höfðaði hann í heimalandi sínu, Ástralíu, þar sem hann er vel þekktur. Fréttaþjónustan krafðist frávísunar og taldi að taka ætti málið fyrir í Bandaríkjunum en ekki Ástralíu enda hafði greinin verið sett á netið í Bandaríkjunum, skrifuð af bandarískum blaðamanni og einkum ætluð bandarískum lesendum.
Rétturinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að höfða mætti málið í Ástralíu. Ekki skipti máli í því samhengi hvar efnið hafði verið skrifað og sett á netið heldur réði úrslitum í hvaða landi efnið hafði verið skoðað. Rétturinn setti þó þann fyrirvara að aðeins mætti höfða meiðyrðamál ef umræddur einstaklingur væri þekktur eða hefði getið sér orð innan þeirrar lögsögu þar sem efnið væri skoðað. Fara má því með málið fyrir dóm í Ástralíu- en þar er meiðyrðalöggjöf strangari en víða annars staðar í heiminum og vernd tjáningarfrelsisins minni.
Þessi úrskurður hefur vakið athygli og töluverðar deilur. Telja margir að úrskurðurinn feli í sér skerðingu á tjáningarfrelsi og erfitt sé að gera efni á netinu þannig úr garði að það standist meiðyrðalöggjöf í öllum þeim ríkjum þar sem það kunni hugsanlega að vera skoðað. Á móti hefur því verið haldið fram að ekki eigi að vera hægt að gefa út efni á netinu sem brýtur gegn löggjöf í því ríki þar sem það hefur fyrst og fremst áhrif- óháð því hvar það er ritað eða hverjum það er ætlað.
Úrskurðurinn markar viss þáttaskil enda líklega í fyrsta sinn sem tekist er á um þetta úrlausnarefni fyrir dómstólum. Tíminn verður að leiða í ljós hvert fordæmisgildi úrskurðarins verður og hvort aðrir dómstólar muni fylgja í kjölfarið.
- Burtu með fordóma - 1. júní 2014
- Rétturinn til þess að ljúga - 23. febrúar 2012
- Markmið sérstaks saksóknara - 31. janúar 2012