Kjördæmakáf

Sá ósiður bandarísku flokkanna tveggja, með hjálp stjórnvalda í einstökum ríkjum, að breyta kjördæmamörkum í því skyni að tryggja sigur ákveðinna frambjóðenda – „gerrymandering“ – hefur alvarleg áhrif á lýðræði í landinu og trú almennings á kosningakerfinu.

Annað hvert ár ganga bandarískir kjósendur í kjörklefann til að greiða atkvæði í kosningum til Bandaríkjaþings. Í langflestum tilvikum er hins vegar um að ræða táknræna athöfn viðkomandi kjósanda því almennt er talið að af þeim 435 þingsætum sem í fulltrúadeild þingsins eru, séu aðeins um 40-50 „competitive” – ekki er fyrirfram vitað í þessum kjördæmum hver niðurstaðan verður. Er það vegna þess að stóru flokkarnir tveir, Demókratar og Repúplikanar, hafa, ásamt stjórnvöldum í flestum ríkjum Bandaríkjanna, lengi iðkað þann leiða sið að draga upp kjördæmi með það að markmiði að tryggja öðrum hvorum flokknum sigur – oftast til að vernda sitjandi þingmann.

Kallast þetta á ensku „gerrymandering” í höfuðið á Elbridge Gerry, fyrrum ríkisstjóra Massachusetts, sem árið 1811 átti þátt í því að búið var til undarlega útlítandi kjördæmi til að tryggja endurkosningu samflokksmanns hans.

Þetta kjördæmakáf, ef kalla má siðinn því nafni, hefur nokkrar leiðar afleiðingar fyrir bandarísk stjórnmál og þjóðlíf almennt – fyrir utan það að vera algerlega á skjön við grundvallarhugsjónir lýðræðisins. Meðal þeirra má nefna að sú skoðun verður æ algengari meðal kjósenda að atkvæði þeirra skipti ekki máli, og því mæta æ færri á kjörstað.

Eins og áður segir er þarna aðallega við flokkana tvo að sakast, en sumir hafa þó bent á að Hæstiréttur Bandaríkjanna beri einnig nokkra sök, en dómar hans hafa, að sumra mati, ýtt undir og afsakað áðurnefnt kjördæmakáf. Er ekki pláss hér til að fara yfir þá alla, en aðeins fjallað um þann sem mest áhrif hefur haft.

Frá sjöunda áratugnum hefur dómurinn lagt gríðarlega áherslu á jöfnun atkvæðisréttar, þ.e. að á bak við hvern þingmann séu nákvæmlega jafn margir kjósendur. Í dómnum Karcher v. Daggett frá árinu 1983 lýsti rétturinn t.d. kjördæmaskiptingu í New Jersey ólöglega vegna þess að ekki bjuggu nákvæmlega jafn margir í öllum kjördæmunum. Í raun munaði minna en einu prósenti á því kjördæmi sem flesta íbúa hafði og því sem fæstir bjuggu í.

Þessi ofuráhersla á atkvæðajöfnun hefur gefið „káfurunum” afsökun fyrir því að vera endalaust að krukka með mörk kjördæma. Eftir hvert manntal þarf að skurka í kerfinu og í stað þess að sætta sig við láta kjördæmi fylgja sögulegum eða náttúrlegum mörkum líta mörg kjördæmi út eins og Rorschach blekklessur eða Dalí-vasaúr.

Höfundur þessa pistils gerir sér grein fyrir því að á sjöunda áratugnum var mikill munur á atkvæðavægi landsbyggðarfólks og borgarbúa í Bandaríkjunum og eitthvað þurfti að gera í því. Fullvíst má þó telja að of langt hafi verið gengið og að lýðræði í Bandaríkjunum hafi borið skaða af.

Nánast öruggt má telja að kjördæmakáf væri enn við lýði þótt áðurnefndur dómur hefði ekki verið kveðinn upp, enda hefur það viðgengist að meira eða minna leyti frá árinu 1811 eins og áður sagði. Hins vegar verður að horfa til þess að einungis fyrir áratug síðan er talið að um 150 kjördæmi hafi verið „káflaus” og að raunverulega hafi þurft að berjast um þau. Þeim hefur fækkað um hundrað síðan þá.

Þessari þróun er sem betur fer hægt að snúa við, eins og gert hefur verið í Iowa þar sem einungis eitt þingsæti af fimm er enn markað af kjördæmakáfi. Stjórnvöld í ríkinu ákváðu að láta af þessum leiða sið og láta nú náttúruleg og söguleg mörk kjördæma ráða að mestu leyti. Hæstiréttur gæti stuðlað að slíkum breytingum með því að slaka eilítið á kröfunni um jafnt atkvæðavægi. Þangað til slíkar breytingar eiga sér stað um landið allt má þó telja víst að áhugi almennings á kosningum og stjórnmálum fari enn minnkandi með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lýðræði í Bandaríkjunum.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)