Góðgerðarskatturinn

Á jólum er einn vænlegasti tíminn fyrir líknar- og góðgerðasamtök til að höfða til hins betri manns og biðja um fjárframlög til góðra málefna. En þrátt fyrir góða viðleitni lætur árangurinn á sér standa, framlög Íslendinga til málaflokksins er skammarlega lágt. Er þar nísku Íslendinga um að kenna? Hluta vandamálsins má a.m.k. rekja til skattalegs umhverfis þeirra sem gefa til slíkra mála.

Í öllu því umstangi sem snýr að afstöðu Íslendinga gagnvart átökum fyrir botni miðjarðarhafs og viðleitni okkar við að styðja við hernaðaráform í Írak vill oft gleymast að fórnarlömb stríðsátaka eru sárafá miðað við allan þann fjölda sem sveltur heilu hungri eða deyr af völdum eyðni og annarra sjúkdóma. Framlag vestrænna ríkisstjórna til þessara málefna er skammarlega lágt. Í þrjátíu ár hafa OECD löndin miðað við 0.7% af þjóðarframleiðslu sem ásættanlegt framlag til þróunaraðstoðar. Engu að síður er meðaltalsframlagið ekki nema 0.2%. Frammistaða Íslendinga er enn verri, og opinber framlög til málaflokksins nema vel innan við 0.1%

Þar erum við í flokki með öðrum tossum, svo sem Bandaríkjunum, en flest Evrópuríki eru langt fyrir ofan okkur. Framlag hinna norðurlandanna er margfalt á við okkur. Jafnvel Bandaríkjastjórn, sem hefur legið undir miklum ámæli fyrir lág framlög, gefur ívið meira en sú íslenska.

Opinber framlög segja þó ekki allt, því verulegur hluti slíkrar aðstoðar kemur frá einstaklingunum sjálfum, svo sem í söfnunarátökum og reglulegum stuðningi við einstök líknarfélög. Flestar ríkisstjórnir hafa byggt inn í sín skattkerfi hvata fyrir borgarana að láta fé af hendi rakna, en þar sker íslenska ríkið sig úr á áberandi hátt.

Í langflestum löndum geta einstaklingar sem kjósa að styrkja góð málefni fengið gjöfina dregna frá tekjuskattsstofni og greiða því ekki af henni tekjuskatt. Slíkt er mikil hvatning fyrir einstaklinga til að veita málaflokknum athygli, enda nýta líknarfélög erlendis sér þessa heimild óspart við kynningu. Á Íslandi er engu slíku til að dreifa og því er enn erfiðara fyrir fólk að réttlæta slíkt fyrir sjálfu sér, því fjárhæðin dregst af ráðstöfunartekjum einstaklinga en ekki heildartekjum. Þetta þýðir að til að einstaklingur sem ætlar að gefa tíu þúsund krónur til Rauða krossins þarf að vinna sér inn um sautján þúsund krónur.

Í íslensku skattalögunum er að vísu að finna heimildir fyrir fyrirtæki til að draga framlög til góðgerðarmála frá skatti. Þær eru þó mjög takmarkaðar, því upphæðin má aðeins nema 0.5% af veltu, á meðan sambærilegt hámark erlendis er í flestum tilfellum um 10% af veltu. Það er oft erfitt fyrir fyrirtæki að réttlæta slíkar gjafir, sérstaklega þegar hart er í ári, og mikil krafa er um arðsemi þeirra.

Frádráttur af gjöfum einstaklinga er ekki einu ívilnanirnar sem eru í gildi erlendis fyrir þá sem gefa til líknarmála. Ýmis ríki veita til dæmis undanþágu frá erfðafjárskatti vegna arfs sem rennur til góðgerðarstofnana. Ýmsar leiðir eru til að nota skattalöggjöf til að auka framlög til góðgerðamála, og eðlilegt að skoða íslensku skattalöggjöfina ítarlega með það í huga. Frádráttur framlaga frá tekjuskattsstofni einstaklinga er mikilvægasta breytingin, en alls ekki sú eina sem hægt væri að hugsa sér.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)