Þær fréttist bárust síðdegis í gær að þau pólitísku tíðindi hefðu orðið að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ákveðið að skipa 5. sætið á öðrum hvorum lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í þingkosningum næsta vor. Flestir héldu að þetta mál væri útrætt eftir mikið upphlaup sem varð í byrjun september þegar vefritið Kreml komst að því að hugsanlegt framboð hennar kynni auka fylgi Samfylkingarinnar. Þær kannanir sýndu einnig að ætluð stuðningsaukning Samfylkingarinnar yrði ekki á kostnað Sjálfstæðisflokksins heldur samstarfsflokka Samfylkingar í R-listanum.
Í yfirlýsingu hennar frá 10. september segir hún meðal annars:
Þá var það mál útrætt. En hvað gerðist svo á vettvangi stjórnmálanna sem knúði Ingibjörgu Sólrúnu út í landsmálin. Af máli hennar í klaufalegum sjónvarpsviðtölum í gær má ráða að þar hafi góð frammistaða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í prófkjöri sjálfstæðismanna ráðið baggamuninn. Fyrst Guðlaugur Þór ætlar á þing þá hlýtur Ingibjörg að þurfa að elta hann þangað.
Farsinn í kringum fréttirnar af framboði Ingibjargar í gær var ótrúlegur. Í fyrstu spurðist út að leitað hefði verið til hennar og var um það fjallað í Fréttablaðinu og í morgunfréttum Ríkisútvarpsins. Síðdegis sama dag virðist sem formaður Samfylkingarinnar hafi ákveðið að hefja einleik – að því er virðist í þeim tilgangi að hjálpa Ingibjörgu að skemma það litla sem eftir er af trúverðugleika hennar.
Ingibjörg Sólrún hélt á fund með félögum sínum í R-listanum til þess að tilkynna þeim að hún hafi ákveðið að sækjast eftir varaþingmannssæti á lista Samfylkingarinnar. Á meðan á fundinum stóð virðist sem Össur hafi haft samband við fjölmiðla þar sem hann lýsti því hátíðlega að hann og Ingibjörg hefðu farið vandlega yfir málin um helgina og að hún hefði sagt “já” við ósk sinni um að taka fimmta sæti á “listanum hans” – þ.e. Reykjavík nyrðri. Þegar Ingibjörg kom af R-listafundinum mætti henni blaðamannaher með fjölda upptökutækja og heimtaði af henni yfirlýsingu og sagðist hún þá vera jákvæð fyrir framboði en vildi ekkert meira gefa upp að svo stöddu. Einn blaðamaðurinn spurði hana út í ummæli Össurar Skarphéðinssonar. Sagðist hún ekki hafa heyrt yfirlýsingar í fjölmiðlum fyrr um daginn en ítrekaði að hún væri jákvæð.
Ingibjörg virðist svo hafa skrópað í þáttinn Ísland í dag á Stöð 2 en þar var viðtalið eftir hinn erfiða fund meirihlutans í borginni sýnt í heild sinni og við var bætt myndskeiði þar sem Össur Skarphéðinsson sagðist hafa fengið afdráttarlaust “já” frá svilkonu sinni. Ekki byrjaði það vel – formaðurinn og varaþingmaðurinn orðin tvísaga um sameiginlegar ákvarðanir á fyrsta degi.
Í Kastljósi gærkvöldsins gerðu Sigmar Guðmundsson og Kristján Kristjánsson tilraun til þess að fá hreinskilið svar frá borgarstjóra um fyrirætlanir hennar. Það reynist þrautinni þyngra. Hún fékkst hins vegar til þess að segjast ætla að vera borgarstjóri út kjörtímabilið. Þegar þeir lögðu að henni að svara hvort hún gæti hugsað sér að verða ráðherra þá taldi hún spurninguna ósanngjarna og fór að tala um hvað myndi gerast ef hún fengi gott starfstilboð erlendis frá og þyrfti að flytja af landi brott. En ekki gátu fréttamennirnir fyrir sitt litla líf togað upp úr drottningunni hvað hún hygðist í raun fyrir. Engar ákvarðanir, engin staðfesta. Ekkert. Bara vandræðalegt tuð í manneskju sem greinilega á ákaflega erfitt með að taka ákvarðanir.
Dagurinn í gær, sem átti að verða dýrðardagur í lífi Ingibjargar Sólrúnnar og tilvist Samfylkingarinnar, varð pólitísk katastrófa. Ingibjörg hefur á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru frá borgarstjórnarkosningunum tekist – upp á sitt eigið eindæmi – að valda pólitísku orðspori sínum meiri skaða en andstæðingar hennar hafa samanlegt gert á tuttugu ára ferli hennar í pólitík.
Rótinn af þessum óförum Ingibjargar virðist vera sú að þvert á það sem allir héldu þá hefur hún ekki það sem til þarf sem leiðtogi. Vandræðagangur hennar orsakast fyrst og fremst af kjarkleysi og ákvarðanafælni. Allir vita að þeir eiginleikar eru hvað síst eftirsóknarverðir í alvöru foringjum.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008