Jólakort



Kæra fjölskylda,

GLEÐILEG JÓL

OG FARSÆLT KOMANDI ÁR

„Við höfum ekkert efni á því að vera

að senda öll þessi jólakort og

nennum heldur alls ekki að standa í þessu.

En það gera þetta allir aðrir svo við

eigum engra kosta völ.“

Kveðja,

Jón Jónsson og fjölsk.

Myndin hér til hliðar er af fyrsta jólakortinu, samkvæmt heimildum hins víðfema internets. Þetta kort var sent fyrir jólin 1843 til vina og ættingja einhvers bresks aristókrata og þá sem nokkurs konar „skítaredding“. Þessi ágæti Lundúnarbúi hafði víst „gleymt“ að senda jóla- og áramótakveðjur til hátt í þúsund vina og vandamanna og bjargaði sér fyrir horn með því senda staðlaða kveðju til allra – ergo jólakort!

Væntanlega hefur Viktoría Bretadrottning verið á jólakortalistanum því hún heillaðist mjög af hugmyndinni og kom af stað þessari hefð sem hefur haldist síðan víða um heim. Íslendingar tóku svo upp þennan sið eftir Dönum um þarsíðustu aldamót og síðan þá kæmi mér ekki á óvart ef að Íslendingar væru búnir að tryggja sér heimsmetið í jólkortasendingum. Það verða auðvitað allir að senda öllum jólakort og því ferðast á ári hverju jafngildi nokkurra Hallormsstaðaskóga af stöðluðum kveðjum með litlu bleki þvers og kurs um landið með ærnum tilkostnaði. En það er kannski eins gott því annars færi Íslandspóstur eflaust á höfuðið eða það kostaði jafn mikið að senda bréf eins og fljúga á staðinn.

Á mínu bernskuheimili komu vanalega fleiri tugir af jólakortum inn um bréfalúguna á ári hverju. Það var ágætis skemmtun að renna í gegnum kortin en af öllum þessu fjölda var kannski rúmlega helmingur kortanna eitthvað á þessa leið:

Kæra fjölskylda,

GLEÐILEG JÓL

OG FARSÆLT KOMANDI ÁR

þakka liðið,

Kveðja,

Jón Jónsson og fjölsk.

Ágætis kveðja svo sem en það mætti halda að viðkomandi hafi annað hvort verið að senda símskeyti og þyrfti að borga fyrir hvern staf eða þá að hann hefði hvorki haft tíma né nennu við gerð kortanna. Þau gætu alveg eins verið stimpluð. Með því að rýna á milli línanna var e.t.v. hægt að sjá alvöru skilaboðin sem verið var að senda:

Kæra fjölskylda,

GLEÐILEG JÓL

OG FARSÆLT KOMANDI ÁR

„Við hittumst nánast ekkert

á þessu ári og eigum ábyggilega

ekkert eftir að hittast oftar á því

næsta. En ég mundi samt

eftir ykkur og fannst ástæða til

þess að senda ykkur jólakort

– hvort sem það var út af því að þið

senduð kort síðast eða bara af

því að við erum tengd man ég

ekki lengur.“

Kveðja,

Jón Jónsson og fjölsk.

Með árunum hefur samt sem betur fer orðin ákveðin þróun í jólakortagerð hjá minni fjölskyldu og öll jólakortin sem mér berast persónulega í dag eru send af hlýjum hug, ef frá eru talin þessi fjölrituðu leiðindarkort í A4 stærð sem flokksbræður mínir senda mér, á kostnað Alþingis.

En burtséð frá allri gagnrýni á jólakortaflóðið verður að viðurkennast að jólakort eru ódýr leið til þess að segja einhverjum frá því að maður þyki vænt um hann. Það hafa allir gaman af því að fá jólakort sem innihalda hlýju og falleg orð og það væri miklu nær að senda falleg jólakort til vina og ættingja og draga úr kostnaði við allar þessar jólagjafir. En kurteisiskortaflóð ofan á allt annað er bara óþarfi. Það væri þá nær að senda páskakort eða sumarkort í stað jólakorta, svo gleðinni sé dreift á fleiri daga.

Þessi pistill er jólakort til ykkar allra, sérstaklega þeirra sem fá jólakort frá Steingrími J. Sigfússyni með mynd af Kárahnjúkum. Gleðileg jól.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)