Martin Sheen hefur gert garðinn frægan með hlutverki sínu sem forseti Bandaríkjanna í hinum geysivinsæla sjónvarpsþætti Vesturálmunni (The West Wing) sem hefur verið til sýningar hér á landi. Það er óhætt að segja að það er ótal margt líkt með Josuha Jed Bartley, sem ræður ráðum og ríkjum í Vesturálmunni og hinum raunverulega forseta Bandaríkjanna, George W. Bush. En það er einkum það sem er ólíkt með þeim tveimur sem er á hvers manns orði vestra í dag.
Þeir eiga það sameiginlegt, Bartley og Bush, að hafa báðir gengið í virta háskóla og eiga báðir dætur sem hafa valdið þeim töluverðu hugarangri vegna afskipta dætranna af áfengi og marijúana. En það er í Íraksmálinu sem Bartley – eða amk leikarinn Martin Sheen – er á algjörlega öndverðum meiði við stefnu Bush.
Sheen er leiðtoginn í hópi þungavigtarmanna úr Hollywood sem hafa tekið sig saman til að mótmæla hernaðaraðgerðum í Írak. Leikarinn hefur nú þegar sent bréf til Hvíta hússins þar sem hann hvetur Bush til að hætta að hóta hernaðaraðgerðum og á fréttamannafundi nú í síðustu viku tilkynnti hópurinn um stofnun sérstakra samtaka sem munu kallast „Artists United To Win Without War“ sem ætla að beita sér gegn árásum á Írak.
Sheen er þekktur fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Hann hefur verið handtekinn alls 70 sinnum fyrir þátttöku í aðgerðum m.a. til að mótmæla heimilsleysi og til að hvetja til afvopnunar Bandaríkjanna. Hann var meira að segja dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að mótmæla eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna við flugherstöð bandaríska hersins. Sama ár vann hann einmitt Golden Globe verðlaunin sem besti leikari í sjónvarpsþætti fyrir leik sinn í Vesturálmunni.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sheen setur sig upp á móti Bush. Í febrúar s.l. líkti hann forsetanum við trúð og sagði hann eins og lélegan grínista sem er að reyna að vinna áhorfendurna á sitt band. Bush hefur reyndar tekist vel til í því að vinna Bandaríkjamenn á sitt band og Íraksmálið hefur aukið vinsældir hans svo að nú hefur verið gerð brúða af forsetanum, á stærð við barbiedúkkuna frægu, sem þylur fleygar setningar úr ræðum forsetans í tengslum við stríðið gegn hryðuverkum. Nú þegar hafa tólf þúsund brúður verið seldar og fyrsta upplagið uppselt. Sheen verður því að hafa sig allan við ef hann ætlar sér að snúa áliti almennings á Bush til að þrýsta á stefnubreytingu í Hvíta húsinu.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020