Upplýst var um helgina að Harry prins, yngri sonur Karls ríkisarfa og Díönu heitinnar prinsessu af Wales, hefði neytt áfengis og kannabisefna fyrir ári síðan. Málið hefur vakið mikla athygli í Bretlandi og hefur forsætisráðherrann Tony Blair lofað viðbrögð Karls föður Harrys, en Kalli sendi strákinn í dagsferð á meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur í Lundúnum, svo hann gæti af eigin raun kynnst afleiðingum fíkniefnaneyslu.
Sjálfur á forsætisráðherrann 16 ára son sem komst í heimsfréttirnar í fyrra þegar hann var hirtur upp af lögreglu í miðborg Lundúna með óstöðvandi uppsölu vegna óhóflegrar áfengisneyslu. Reyndar er athæfi beggja drengjanna brot á breskum lögum, áfengis má ekki neyta fyrr en eftir 18 ára aldur og kannabis er vitaskuld bannað með öllu þar í landi eins og víðast hvar annars staðar. Bjórsull og fylleríisógleði er væntanlega ekki tilefni til þess að komast í fréttir. Óheppni þessara tveggja ungmenna er fyrst og fremst fólgin í frægð foreldranna.
Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er Harry ekki beint konunglegur eða hátíðlegur í útliti um þessar mundir og raunar í litlu frábrugðinn hinum hefðbundna „vandræðaunglingi“ sem svo er kallaður. Unglingsárin eru auðvitað sá tími sem meirihluti fólks kemst í kynni við það sem ekki má í lífinu og margir brenna sig á því. Það er í mannlegu eðli að heillast af hinu forboðna og þar eru fíkniefni engin undantekning. Allir mega reikna með því að börn þeirra komi á einhverjum tímapunkti til með að taka forboðna ávexti. Þá reynir á viðbrögð foreldranna og undanfarandi uppeldi þeirra.
Þann 3. júní í fyrra fjallaði ég í pistli hér á Deiglunni um opinber afskipti af uppeldismálum og hvernig þau kunna að deyfa eðlislægar hvatir foreldranna til að annast börnin sín. Þar sagði meðal annars:
„Hugsanlega hefur samanþjöppuð sérfræðikunnátta á höndum opinberra aðila þau áhrif, að foreldrar finni til vankunnáttu og getuleysis í uppeldinu. Fólk hættir að stóla á eðlisávísun sína og eftirlætur sérfræðingum hins opinbera uppeldið, svo ekkert fari nú úrskeiðis – best að láta fagmennina um þetta…
… En hin endanlega ábyrgð á uppeldi barna liggur hjá foreldrum. Þeir geta ekki afsalað sér þeirri ábyrgð til sérfæðinga hins opinbera, þótt þeir efist um eigin hæfni í samanburðinum. Á sama hátt ætti hið opinbera að láta af þeirri áráttu sinni, að yfirtaka í ríkari mæli þær skyldur sem foreldrar eiga að bera – nema brýna nauðsyn beri til.“
Langflestir unglingar lenda í einhvers konar veseni, líka þeir konungbornu. Það er hins vegar stór munur á því að bragða á hinum forboðnu ávöxtum og því að vera með þau á matseðli dagsins. Viðbrögð foreldra og undanfarandi uppeldi eru lang mikilvægustu áhrifaþættirnir til að koma í veg fyrir hið síðarnefnda. Ríkisvaldið gæti þess vegna varið tugum milljarða í löggæslu, fræðslu og forvarnir, en það kemur að litlu gagni ef foreldrar eru ekki í stakk búnir til að mæta vandanum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021