Strom Thurmond, öldungardeildarþingmaður, varð tíræður fyrr í vikunni. Af þessu tilefni var haldin mikil veisla í Hvíta húsinu honum til heiðurs en jafnframt því að vera afmælisveisla var þetta kveðjupartí því Thurmond hættir sem Öldungadeildarþingmaður í byrjun janúar eftir að hafa setið þar lengur en nokkur annar. Hann var fyrst kosinn til setu í Öldungadeildinni árið 1954, þá 52 ára gamall, og hefur setið þar sleitulaust síðan – í 48 ár.
Það er nokkur ástæða til þess að fagna brotthvarfi Thurmond úr bandarískum stjórnmálum því þótt hann sé í dag ósköp sakleysislegur og krúttlegur karl þá er ferill hans í stjórnmálum vafasamur og þær skoðanir sem hann hefur staðið vörð um óviðfelldnar í meira lagi.
Thurmond var upphaflega Demókrati en klauf sig frá flokknum og bauð sig fram í forsetakosningunum 1948 undir merkjum Dixiekrata. Sá flokkur var stofnaður af Suðurríkjademókrötum sem sættu sig ekki við það markmið Harry Truman, forsetaframbjóðanda Demókrata, að binda endi á aðskilnað kynþáttana og tryggja svörtum Bandaríkjamönnum mannréttindi.
Í kosningabaráttu sinni árið 1948 lagði hann mesta áherslu á áframhaldandi aðskilnaðarstefnu. Í frétt í Washington Post í gær var vitnað í yfirlýsingu Thurmond í þeirri kosningabaráttu. Það er sennilega réttast að birta þessa yfirlýsingu, sem var kjarninn í kosingabaráttu hans (sem tryggði honum sigur í fjórum fylkjum: Suður Karólínu, Alabama, Misssissippi og Louisiana), óþýdda svo boðskapurinn misfarist nú ekki í þýðingu:
Thurmond var kosinn á þing árið 1954 þrátt fyrir að vera ekki á kjörseðlinum (hægt er að kjósa hvern sem er með því að skrifa nafn hans á kjörseðilinn) en var síðan nokkrum sinnum kosinn á þing fyrir demókrata áður en honum ofbauð mannréttindaárátta flokksforystunnar og gekk til liðs við repúblikana sem tóku honum fagnandi, enda áttu flokkskipti Thurmond stóran þátt í þeirri fylgissveiflu sem þá átti sér stað í Suðurríkjunum.
Á þessum tíma urðu mikil pólskipti í bandarískum stjórnmálum þegar norðrið varð eign demókrata og suðrið fylkti sér um Repúblikanaflokkinn. Margir þakka Thurmond fyrir þetta og hefur hann því alla tíð átt óvenjugott með að dæla peningum heim í hérað með stuðningi samflokksmanna sinna á þingi. Stjórnmálamenn í Suður Karólínu hafa svo launað honum fyrirgreiðsluna með því að nefna ótölulegan fjölda opinberra mannvirkja eftir hinum aðsópsmikla þingmanni sínum. Og tryggja honum ávallt glæsilega kosningu; síðast árið 1996 þegar Thurmond var 94 ára gamall.
Á fyrrnefndri afmælishátíð hélt leiðtogi Repúblikana í Öldungadeildinni, Trent Lott frá Mississippi, ræðu til heiðurs Thurmond. Þar sagði hann m.a. þetta (og enn læt ég vera að þýða tilvitunina):
Ummælin hafa valdið töluverðum titringi – og samkvæmt frásögn Washington Post setti veislugesti hljóða þegar þingmaðurinn, sem bendlaður hefur verið við rasistasamtök í heimafylki sínu, lét þessi orð falla.
Í þeim fréttum sem birst hafa um afmæli Strom Thurmond í tilefni 100 ára afmælis hans er þess gjarnan getið að þótt hann hafi á sínum “yngri árum” verið málsvari kynþáttaaðskilnaðar þá hafi hann vitkast með árunum og jafnvel gengið svo langt í umburðarlyndinu að hafa þeldökkt fólk í starfsliði sínu. Já – þessi bernskubrek verða víst að fyrirgefast – Thurmond var ekki nema rétt 55 ára þegar hann hélt sólarhringslangt málþóf til að tefja fyrir samþykkt á lögum sem tryggðu mannréttindi svartra árið 1957. Þetta er er lengsta málþóf í sögu bandarískra þingsins og eina eftirvektarverða framlag hans til bandarískra stjórnmála – fyrir utan þaulsetuna náttúrlega.
Það er furðuleg tilhneiging þegar rætt er um aldrað fólk að tala í minningargreinastíl jafnvel þótt andlagið sé á lífi og enn við fulla heilsu. Það má ekkert gagnrýna og ekkert finna að hinum aldna. Afmælisgreinar dagblaðana um Thurmond minna því pínulítið á söguna um prestinn sem sagði í líkræðu yfir morðingja: “Á sinn hátt tókst honum að færa fólk nær Guði.”
Staðreyndin um Strom Thurmond er auðvitað sú að hann var slæmur stjórnmálamaður sem gerði frekar ógagn en gagn á ferli sínum. Það að hann hafi náð háum aldri breytir engu um það. Sé hughvarf hans varðandi málefni kynþáttanna og mannréttindi einlægt er rétt að honum sé fyrirgefið. En maður sem hlýtur pólitískan frama með því að höfða til lægstu kennda mannsins og nýtir sér ótta, hatur, fordóma og fáfræði til eigin framdráttar – og sér svo skyndilega að sér – hefði séð sóma sinn í að hætta og hleypa öðrum að. Þeir sem fjalla um feril hans ættu ekki að láta eins og langlífi sé eitthvað sérstakt pólitískt afrek.
Ummæli Trent Lott í afmælisveislu gamalmennisins sýna að jafnvel þótt Strom Thurmond sé nú horfinn af sjónarsviðinu þá er grunnt á hinni ógeðfelldu hugmyndafræði, sem hann barðist fyrir, meðal sumra flokksbræðra hans.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021