Við Íslendingar erum lélegir í ójöfnuði. Raunar erum við næstlélegastir í heiminum, aðeins Slóvakía er lélegri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands. Skýrslan fjallar um tekjuskiptingu á Íslandi og eðli málsins samkvæmt hafa fjölmiðlar rýnt í skýrsluna og hún verið til nokkurrar umfjöllunar. Skýrslan er sérstaklega vel gerð; skipuleg, vönduð og fræðandi. Þar er sagt frá því að ójöfnuður á Íslandi virðist vera að aukast og er nú orðin örlítið meiri en árið 1988 en undir lok níunda áratugarins og byrjun þess tíunda jókst jöfnuður á landinu. Í skýrslunni er því einnig haldið fram að minnkandi tekjutenging bóta og aukin atvinnuþátttaka hafi leitt til þess að launamunur á milli þeirra tekjuhæstu og tekjlægstu hafi vaxið á síðustu árum. Þá kemur fram að í uppsveiflu minnkar ójöfnuður en eykst í hallæri. Þetta geta menn túlkað sem svo að tekjulágir verði fremur fyrir barðinu á hallæri heldur en tekjulágir eða að þeir hagnist meira á uppsveiflunni.
Í skýrslunni er leitast við að skýra þróun mála hér á landi og setja upp samanburð við önnur lönd. Þar er einnig að finna góða umfjöllun um hvort jöfnuður eigi að vera markmið stjórnvalda en átakalínur stjórnmálanna endurspeglast að miklu leyti í því hvort ríkisvaldið skuli beita sér hvað mest fyrir tekjujöfnuði á meðal þegnanna eða fyrir jöfnun tækifæra. Í slíkri umræðu er mikilvægt að ekki sé ruglað saman hugtökunum jöfnuði og jafnræði. Í þann pytt falla ýmsir vinstri menn í slíkri umræðu þar sem þeir telja frelsi manna með lægri laun sé á einhvern hátt minna heldur en frelsi tekjuhárra og að líkindum má rekja þann misskilning til þess að goðsögnin um að eins gróði sé annars tap lifir enn ágætu lífi.
Vinstri sinnaðir lesendur skýrslu Hagfræðistofnunnar hafa að líkindum talið að í henni væri að finna gott vopn til þess að berja á kapítalistunum í ríkisstjórninni. Ójöfnuður eykst og það hlýtur að vera slæmt samkvæmt skilningi þeirra. Hins vegar hljóta úrræðin sem hagfræðingarnir leggja til að koma þessum vinstri mönnum nokkuð á óvart. Þeir leggja ekki til stórfellda hækkun bóta, lágmarkslauna og þ.a.l. skattheimtu. Í raun fara þeir algjörlega í hina áttina. Í fyrsta lagi skyldu ríkisútgjöld sett í fastari skorður þ.a. búin yrði til einföld regla sem mæli fyrir um hvernig þau þróist. Í öðru lagi mæla þeir með að dregið verði úr jaðarsköttum með minnkun tekjutenginga og lækkun skatthlutfalls. Í þriðja lagi leggja þeir svo til að fleiri úrræði til menntunar standi fólki til boða, svo það geti smám saman bætt stöðu sína á vinnumarkaði og þar með kjör sín.
Í stuttu máli má segja að hagfræðingarnir leggi til að skilaboðum ríkisvaldsins til almennings verði breytt. Í stað þess að “kerfið” haldi því að fólki að það sé dæmt til þess að þurfa á aðstoð ríkisins að halda er lagt til þess að fólk sé hvatt til þess að efla sig sjálft sem starfsmenn t.d. með að sækja aukna menntun. Liður í þessu hvatakerfi er að lækka skatta svo einstaklingar njóti í ríkara mæli afraksturs vinnu sinnar og festist síður í svokölluðum fátæktargildrum..
Í téðri skýrslu er m.a. nefnt ólíkt viðhorf Evrópubúa og Bandaríkjamanna til launamunar. Þar segir að í rannsókn Alesina, Di Tella og MacCulloch, sem birtist 2001 hafi komið í ljós að “tekjulágir einstaklingar í Evrópu kjós[i] tekjujöfnuð en ekki í Bandaríkjunum” og líklegasta skýringuna telja þeir vera að “efnahagslegur hreyfanleiki sé meiri í Bandaríkjunum en Evrópu sem valdi því að tekjulágir einstaklingar setji ójöfnuð ekki fyrir sig vegna þess að þeir eiga alveg eins von á að bætast í hóp hinna efnaðri einn góðan veðurdag.” Munurinn á viðhorfi Bandaríkjamanna og Evrópumanna er í sem stystu máli sá að í Bandaríkjunum virðast menn vera bjartsýnni um eigin hag og telja sig eiga von til þess að bæta hann. Í Evrópu virðist hins vegar sem landægara sé að fólk telji vonlaust að bæta stöðu sína í efnahagslegu tilliti. Varla er nokkur vafi á því að fyrrnefnda lífssýnin ali af sér heilbrigðara og fallegra mannlíf en hin síðari.
Þrátt fyrir að þeir allra hörðustu í röðum íslenskra sósíalista hafi reynt að gera sér mat úr niðurstöðum skýrslunnar þá er víst að hún er æði bitlaust vopn í baráttu þeirra við að sannfæra fólk um ójöfnuð og ranglæti í íslensku samfélagi. Tekjumunurinn er minni í aðeins einu landi af þeim 94 sem Alþjóðabankinn kannaði fyrir skemmstu. Ísland er því í öðru sæti í jöfnuði – eða næstneðsta sæti í ójöfnuði – eftir því hvernig á það er litið. Raunar má jafnvel telja að þessi litli launamunur geti verið einkenni misráðinnar pólitíkur fremur en hið gagnstæða enda segja skýrsluhöfundar að í viðleitni sinni til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu beiti stjórnvöld stundum meðulum sem eru verri en sjúkdómurinn.
Í öllu falli þá er ferskur blær yfir tillögum höfunda skýrslunnar – ójöfnuði verður ekki eytt með tilfærslukerfum – mun eftirsóknarverðara er að skapa samfélag þar sem eintaklingarnir sjálfir hafa tækifæri til að láta drauma sína rætast og fá viðnám krafta sinna án þess að þeim sé refsað fyrir það með háum tekjusköttum og yfirþyrmandi jaðaráhrifum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021