Síðasta vor samþykkti Alþingi breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 vegna kröfugangna, mótmæla og mótmælafunda. Samkvæmt breytingunni getur lögregla nú bannað að mótmælendur hylji andlit sitt eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar. Þetta bann er háð huglægu mati lögreglu um það hvort henni finnist „uggvænlegt“ að óspektir verði á mótmælafundi, kröfugöngu eða á annari slíkri samkomu.
Það er viðurkennt í lögskýringargögnum að engin alvarleg atvik hafi komið upp á Íslandi af þessum toga. Enda skilst manni að það hafi t.d. aldrei verið neitt sérstakt vandamál að auðkenna mótmælendur á 7. og 8. áratugnum þegar sló í brýnu á milli þeirra og lögreglu.
Engu að síður fannst dómsmálaráðherra tilefni til að koma með íþyngjandi lagagrein fyrir borgarana inn í íslenska lagasafnið. Rökin voru að mikið væri um óeirðir á fjölmennum mótmælafundum í öðrum löndum og engin ástæða sé til að ætla að þróunin verði öðruvísi hér á landi!
Það er alveg ljóst að ráðherra er þarna að takmarka verulega rétt fólks til að mótmæla en fyrir gildistökuna voru aðeins fornar greinar í lögreglusamþykktum örfárra sveitarfélaga sem bönnuðu að menn gengju „dulklæddir“ á almannafæri nema á leið af eða á grímudansleik eða álfadans. Þessi ákvæði í lögreglusamþykktum voru aldrei notuð – auk þess sem þau tengjast mótmælum ekki á nokkurn hátt. Reyndar gætu áhugamenn um grímudanleik og álfadans ekki skýlt sér á bak við lögreglusamþykktirnar þar sem embættismennirnir í dómsmálaráðuneytinu sáu við slíkum undanskotum. Það er sérstaklega tekið fram í lögskýringargögnunum að ekki sé ástæða til að:
„undanskilja samkomur sem einkennast af því að fólk kemur saman grímuklætt eða í sérstökum búningum, til dæmis grímudansleikir, skrúðgöngur, leiklistaruppákomur og grímuklæðnaður menntaskólanema við útskriftarfagnað.“
Maður fær það á tilfinninguna við lestur lögskýringargagnanna að þeir embættismenn sem sömdu textann upplifi íslenskan veruleika á allt annan hátt en hinn almenni borgarari.
Þegar forseti kínverska þingsins og síðar forsetinn komu hér til lands með stuttu millibili voru með þeim urmull ljósmyndara sem kerfisbundið tóku myndir af öllum mótmælendunum ásamt meðlimum Falun Gong í seinni heimsókninni. Þessi vinnubrögð eru viðtekin venja í harðstjórnarríkjum og afar hentug til að hafa uppi á „óvinum ríkisins“ til að ofsækja þá seinna meir. Það er nefnilega bara ríkið sem hefur áhuga á því hverjir taka þátt í mótmælum. Fyrir meirihluta mótmælanda skiptir málefnið sjálft öllu.
Hvort sem fólk er að mótmæla í harðstjórnarríkjum eða á Íslandi þá getur það fundið sig knúið til að fela andlit sitt, sérstaklega þegar um er að ræða mótmæli sem beinast gegn valdhöfum. Umrædd lagabreytingin er því til þess fallin að letja ákveðið fólk í að tjá skoðanir sínar með þátttöku í friðsömum mótmælum.
Einu fjöldafundirnir sem hafa þróast út í óeirðir að einhverju ráði eru Gúttóslagurinn og mótmælin við inngöngu Íslands í Nató. Báðir þessi atburðir gerðust fyrir meira en 50 árum síðan. Í seinni tíð hefur bókstaflega ekkert verið um ofbeldi eða óeirðir, hvorki í mótmælum né á álfadönsum. Síðustu mótmælin hér á landi voru vegna komu kínverska forsetans hingað til lands í sumar. Þar sýndu mótmælendur oft óvenju mikla stillingu þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að hindra mótmælin en að sjálfsögðu voru engar óeirðir eða ofbeldi.
Maður hlýtur að velta fyrir sér þörfinni á slíkri lagasetningu sem skerðir frelsi manna til að mótmæla en skv. 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er verndaður réttur manna til að safnast saman vopnlausir. Í sömu grein kemur fram að lögreglunni sé heimilt að vera við almennar samkomur og að banna megi mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir. Af þessu leiðir að lögreglan hefur einnig heimild til að leysa upp mótmæli ef óeirðir brjótast út þar sem stjórnarskráin verndar eingöngu friðsamleg mótmæli. Lögreglan hafði því fyrir lagabreytinguna drjúgar heimildir til að banna og leysa upp mótmæli ef hún telur þörf á því.
Þörfin fyrir frekari íþyngjandi heimildum gegn mótmælendum er því lítil sem engin, svo ekki sé talað um gegn áhugamönnum um grímudansleiki og álfadans! Hins vegar má einnig velta því fyrir sér hvort þessi heimild sé til góðs? Hún veitir lögreglunni t.d. heimild til að krefjast þess í miðjum mótmælum að mótmælendur taki niður grímur og/eða þvo sér í framan. Í þokkabót er krafan byggð á huglægu mati lögreglu um það að „uggvænlegt“ sé að óspektir brjótist út. Menn geta rétt ímyndað sér hvað hefði gerst ef lögreglan hefði tekið upp á þessu í miðjum Falun Gong mótmælunum í sumar. Það hefði verið eins og að hella olíu á eld og aukið líkurnar á óspektum upp úr öllu valdi.
Það bendir því margt til þess að þessi nýja heimild geti haft þveröfug áhrif heldur en ætlast var til. Hún geti stuðað og æst mótmælendur upp í óspektir í stað þess að koma í veg fyrir þau.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020