Í liðinni viku var Jóhanna áberandi í fjölmiðlum sem oft áður. Að þessu sinni var kvörtunarefni hennar hin árlega gagnrýni á skattheimtu á fyrirtæki. Nánar tiltekið var gagnrýninni beint, annars vegar að i) lækkun tekjuskattsprósentu á fyrirtæki úr 30% í 18% og hins vegar að ii) þeim “töpuðu” krónum sem ríkissjóður verður af á ári hverju vegna lagaákvæða, sem veita fyrirtækjum heimild til að draga uppsafnað tap fyrri ára frá tekjuskattstofni.
i)
Til að blómlegt atvinnulíf þrífist á Íslandi þarf að skapa íslenskum fyrirtækjum raunhæfa samkeppnisstöðu á alþjóðamarkaði. Í því samhengi verður að horfast í augu við að það fylgja því ýmsir ókostir að reka útflutningsfyrirtæki á Íslandi (hér eru sjávarútvegsfyrirtæki undanskilin). Fjarlægð frá markaði er þar stærsti gallinn sem kristallast í hærri sölukostnaði og flutningskostnaði svo e-ð sé nefnt. Það er því ekki tilviljun að alþjóðleg þekkingarfyrirtæki eins og Össur og Marel hafi þurft að velta því alvarlega fyrir sér hvort það væri hagstæðara að flytja meginstarfsemi sína úr landi, nær þeim markaðssvæðum sem þau eru að vinna á.
Til að laða til landsins erlent fjármagn og þekkingarfyrirtæki sem veita hámenntuðu fólki vel launaða vinnu er nauðsynlegt að bæta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á Íslandi. Hluti af þeim aðgerðum er að bjóða upp á stöðugt stjórnarfar og einfalt skattkerfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og gott betur. Hættan er sú að missa alþjóðleg fyrirtæki úr landi og útiloka áhugasömum fyrirtækjum að taka upp starfsemi hér. Lækkun tekjuskattsprósentunnar er heillaskref í þá átt að gera Ísland samkeppnishæfara á alþjóðlegan mælikvarða og ber að fagna því.
ii)
Jóhanna reynir að halda því fram á heimasíðu sinni að ríkissjóður verði af talsverðum fjármunum vegna uppsafnaðs rekstrartaps. Þar segir hún m.a.: „Á s.l. 4 árum höfðu liðlega 2.000 fyrirtæki engan tekjuskatt þrátt fyrir 70 milljarða hagnað. Án yfirfæranlegs rekstrartaps hefðu þau átt að greiða tæpan 21 milljarð króna í tekjuskatt.“ Hins vegar hlýtur stóra spurningin að vera hvort þessi hagnaður hefði myndast ef þessi fyrirtæki hefðu ekki mátt færa rekstrartap milli ára og hvort það væri yfir höfuð hægt að reka fyrirtæki við svoleiðis aðstæður.
Eitt sinn var pistlahöfundur á fyrirlestri uppi í Háskóla hjá konu sem starfaði hjá Álverinu í Straumsvík og hún sagði e-ð á þessa leið: “Í álbransanum koma alltaf nokkur mögur ár í röð þar sem er tap á fyrirtækinu og svo koma nokkur góð þar á eftir. En það er allt í lagi því að góðu árin eru svo miklu betri en mögru árin eru slæm.” Ekki getur pistlahöfundur ímyndað sér að Ísland þætti vænlegur kostur fyrir sveiflukenndan stóriðnað eins og álframleiðslu ef ekki væri fyrir heimildir í lögum um að færa rekstrartap milli ára. Tap ríkisins væri miklu meira af því ef fyrirtæki sæju sér ekki fært að vera með starfsemi á Íslandi. Þetta á ekki eingöngu við stóriðnað, hér mætti nefna ýmiss konar þekkingariðnað s.s. líftækni og hugbúnaðargerð þar sem getur tekið mörg ár að byggja upp stöndug fyrirtæki sem skila hagnaði. Auk þess má telja víst að bókhaldsbrellur og skattsvik myndu aukast stórkostlega ef heimild til nýtingar rekstrartaps væri ekki fyrir hendi.
Það væri einfaldlega verið að kippa fótunum undan nýsköpun og mörgum atvinnuvegum með því að leyfa ekki fyrirtækjum að nýta uppsafnað rekstrartap fyrri ára. Pistlahöfundi þætti gaman að sjá hvernig þessi 2.000 fyrirtæki sem Jóhanna talar um færu að því að fjármagna 21 milljarðs króna skattgreiðslur til ríkisins. Miðað við fjölda uppsagna undanfarið og horfur á markaði, þar sem t.a.m. vanskil fyrirtækja nánast tvöfölduðust frá árslokum 2000 til loka september 2002, má telja harla ólíklegt að þau hefðu gert það auðveldlega.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að rýmka þessar heimildir fyrirtækja þannig að þau geti nýtt tap undanfarinna tíu ára í stað átta í dag. Pistlahöfundur fagnar þessu frumvarpi og að hans mati mætti ganga enn lengra en þar er lagt til og afnema með öllu þessa tengingu við ákveðinn árafjölda.
Að lokum vill þó pistlahöfundur, aldrei þessu vant, taka undir með Jóhönnu vegna gagnrýni hennar á hækkun tryggingagjalds, sem leggst ofan á allar launagreiðslur fyrirtækja (og einstaklinga) í landinu. Hér er á ferðinni ótímabær hækkun sem bitnar verst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sérstaklega í þekkingariðnaði þar sem launakostnaður er langstærsti útgjaldaliðurinn. Nær hefði verið að skera niður ríkisútgjöld um þennan eina og hálfa milljarð, sem hækkun tryggingagjaldsins um 0,5 prósentustig (úr 5,23% í 5,73%) á að skila í ríkiskassann. Af nógu er allavega að taka í þeim efnum.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008