Þegar miklir íþróttamenn eldast og hæfileikarnir að dvína finnst mörgum mikilvægt að þeir láti ekki minningar um forna frægð fölna vegna aumkunarverðra tilrauna til þess að halda í eitthvað sem eitt sinn var – en er ei meir. Menn eiga að hætta á toppnum. Hnefaleikakappinn Joe Louis er gjarnan nefndur til sögunnar þegar færð eru rök fyrir því að íþróttahetjur láti staðar numið á meðan þeir eru ennþá meðal þeirra allra bestu. Hann ákvað að hætta hnefaleikaiðkun árið 1949 sem heimsmeistari eftir að hafa haldið titlinum í tólf ár. Hann ætlaði að hætta á toppnum. Hann tók hins vegar þá ákvörðun að snúa aftur skömmu síðar þar sem skattskuldir hans voru að sliga hann.
Endurkoma hans var dapurleg. Í stað þess að ferils hans sé minnst sem glæstrar sigurgöngu er hann nú vart nefndur nema að fjallað sé um bardagann við Rocky Marciano árið 1951 en þá var Louis barinn svo illa að Marciano sjálfur hefur sagt hafa verið hálf klökkur yfir því að þurfa að fara svona með gamla meistarann. Bardaganum lauk þegar Marciano beinlínis kýldi Louis út úr hringnum og óhætt er að segja að sorlegri endi á íþróttaferli sé vart hægt að hugsa sér.
Louis var sannarlega einhver mesti íþróttamaður sögunnar. Hann var amersíski draumurinn holdi klæddur, sonur fátækra vinnumanna á bómullarekrum, sem komst ekki bara til metorða í íþróttaheiminum heldur til almennrar virðingar í bandarísku samfélagi – og varð ein af helstu táknmyndum þess að allir kynstofnar í Bandaríkjunum gætu lifað í sátt og samlyndi á tímum mikillar ólgu bæði innan lands og á heimsvísu. Þegar Louis barðist við Max Schmeling, í annað sinn, í júní 1938 sameinaðist þjóðin að baki hinum unga þeldökka meistara og að sama skapi leit Þýskaland nasismans á baradagann sem uppgjör á milli hinnar hvítu herraþjóðar og “óæðri” kynstofna. Bardaganum lauk á 2 mínútum og 4 sekúndum – með sigri Louis.
En þrátt fyrir að hafa verið þjóðhetja þá endaði líf Louis á afar dapurlegan hátt. Eftir niðurlæginguna gegn Marciano árið 1951 stóð hann eftir algjörlega blankur, með milljónaskuld við ríkissjóð á bakinu. Til þess að framfleyta sér, og borga skuldir sínar, tók Louis m.a. þátt í fjölbragðglímu – en loks gafst hann upp á því og sá fram á að geta aldrei greitt skuldir sínar. Þetta var þungur biti fyrir Louis að kyngja en hann var maður þess eðlis að hann kunni illa við að skulda og sérstaklega hinu opinbera – sem dæmi um það má nefna að þegar hann byrjaði feril sinn sem hnefaleikamaður lét hann það verða sitt fyrsta verk að endurgreiða borgaryfirvöldum í Detroit velferðargreiðslur sem fjölskylda hans hafði hlotið á meðan hún hafði ekki til hnífs og skeiðar – þótt honum hafi vitaskuld ekki verið það skylt.
Louis fluttist til Las Vegas þar sem hann þjónaði sem gestgjafi í spilavíti – og varð eins konar fígúra. Hann drakk óhóflega og varð eiturlyfjafíkill og dó loks árið 1981, 66 ára að aldri. Honum tókst að klúðra frá sér, með óábyrgum lífsstíl, meira en 5 milljónum dollara sem hann hafði unnið sér inn í tekjur en auk þess því – sem meira skiptir – vann hann óbætanlega skaða á orðspori sínu sem einum mesta íþróttamanni sögunnar.
Körfuknattleikssnillingurinn Michael Jordan tilkynnti fyrir skemmstu að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna – í þriðja sinn – að þessu leiktímabili loknu. Jordan verður fertugur þann 17. febrúar næstkomandi hefur komið gagnrýnendum sínum mjög á óvart með frammistöðu sinni eftir að hann sneri aftur og hóf leik með Washington Wizards í fyrra. Margir hafa orðið til þess að nefna Joe Louis í þessu sambandi og bent á að þegar Jordan hætti í annað sinn var það eftir að hafa tryggt Chicago Bulls þriðja meistaratiltil sinn í röð, vorið 1998, og auk þess var það Jordan sjálfur sem skoraði sigurkörfuna í síðasta leik úrslitakeppninnar. Hefði það sannarlega verið óviðjafnanlegur endir á ótrúlegum ferli.
Nú hefur Jordan tilkynnt að hann muni leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil og ljóst er að margir aðdáendur hans anda léttar, því enn hefur Jordan töluvert fram að færa sem körfuboltamaður – og áhyggjur manna af því að hann valdi verulegum skaða á því orðspori sem hann hefur áunnið sér á glæstum ferli sínum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021