Talsverður munur er á því hvaða skilning menn leggja í hugtakið frelsi. Þegar vesturlandabúar tala um frelsi, þá eiga þeir í flestum tilvikum við frelsi til einhvers. Þetta er sú frelsishugsun sem mótaðist í frönsku byltingunni um skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi. Skoðanafrelsi er frelsi til að hafa hvaða skoðanir sem er, málfrelsi er frelsið til að tjá þessar skoðanir sínar og ferðafrelsi er frelsið til að fara hvert á land sem er, hvort sem það er til að tjá skoðanir sínar, kynnast nýjum skoðunum, eða bara til að fara í sólbað.
Í Rússlandi er þessu öfugt farið. Þar tala menn frekar um frelsi frá hlutum en til þeirra. Rússar sem nú hafa það misgott á tímum markaðsbúskapar bölva ekki þessu nýfengna frelsi. Þeir bölva frelsinu sem þeir hafa ekki lengur. Á sovéttímanum hafði almenningur nefnilega víðtækt frelsi frá fátækt. Fólk hafði líka frelsi frá glæpum, stríði og hryðjuverkum, nokkuð sem Rússa skortir í dag.
Í bókinni 1984 eftir George Orwell er að finna greinargerð um Newspeak, hið tilbúna tungumál harðstjórnarinnar sem ríkti í nafni Stóra Bróður og er þar að finna skilgreiningu á frelsi, þar er um að ræða frelsi frá hlutum, líkt og í Rússlandi, en þó er um að ræða allt annað frelsi:
„The word free still existed in Newspeak, but could only be used in such statements as „The dog is free from lice“ or „This field is free from weeds.“ It could not be used in its old sense of „politically free“ or „intellectually free,“ since political and intellectual freedom no longer existed even as concepts, and were therefore of necessity nameless.“
Sú orka sem harðstjórarnir í 1984 eyddu í að þynna út merkingu orðsins er skiljanleg, í ljósi þess hversu heitar tilfinningar það vekur. Spaugstofumenn tóku orðið fyrir í umfjöllun sinni um nýjasta upptæki Ástþórs Magnússonar. Hann er þar skopstæltur sem jólasveinn og handtekinn fyrir gjafalista sem inniheldur stríðsleikföng. Hann ber við sakleysi og segist vera á móti stríðsleikföngum. „Ja, það er verra, þá ertu á móti frelsinu,“ svarar Grani að bragði, og er þar vísað algengrar notkunar orðsins í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum.
Á okkar litla landi höfum við á síðari árum búið við víðtækt frelsi, hvort sem litið er á vestrænu skilgreininguna eða þá rússnesku. Í þessu umhverfi hafa ungliðar stærsta stjórnmálaflokksins, sem varla hafa kynnst ófrelsi af nokkru tagi, tekið orðið upp á sína arma. En í stað þess að velta vöngum yfir merkingu orðsins hefur það í þessum hópi verið notað til jafns sem slagorð og trúarþula, til að réttlæta hvað sem þarf að réttlæta á hverjum tíma, og jafnvel til að draga menn í dilka. Setningar eins og „hann er nú ekki mikill frjálshyggjumaður“ heyrast jafnvel og þýðir sú setning að ekki sé nú mark takandi á honum.
Örsjaldan, svo sem nú í sumar, hafa ungliðarnir þurft að minna valdhafa á franska frelsið, en mun oftar snýst barátta ungliðanna um allt annað frelsi, sem á stundum líkist meira rússneska
Kjarninn í málflutningi ungra frjálshyggumanna er að sérhver maður eigi að njóta frelsis, að svo miklu leyti sem það skerðir ekki frelsi annarra. En slík rökleiðsla er ansi léttvæg ef menn eru ekki sammála um hugtakið frelsi. Skattfrelsi er góðra gjalda vert, en frelsi frá sköttum skerðir óneitanlega frelsi annarra til skólagöngu og heilbrigðisþjónustu, sem margir telja síst ómerkilegra frelsi.
Það er líklegt að ýmsar þrætuefni myndu leysast af sjálfu sér ef menn gætu orðið á eitt sáttir um notkun þessa orðs sem allir virðast vilja túlka sér í hag og allir hafa skoðun á. Halldór Laxness hafði að sjálfsögðu sína skoðun á frelsinu eins og aðrir, og það er við hæfi að ljúka þessari stuttu úttekt á orðum skáldsins:
„Það þarf mikla víðsýni og andlegan þroska til þess að kunna að skilja frelsið og rugla því ekki saman við alskonar dutlúnga og heimskulega fyrirtekt í einstaklíngnum, eða bara vanþakklæti og ósvífinn hugsunarhátt.“
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020