Starf lögmanna og lögfræðinga hefur þann ókost að störfin snúast að mestu leyti um deilur milli manna og afbrot. Þetta þýðir að kynni flestra af lögmönnum og lögfræðingum eru tengd neikvæðri lífsreynslu í einhverri mynd. Leiðir það til þess að lögfræðingastéttin er ein sú óvinsælasta á jarðkringlunni.
Ég tel að fáir efist um það í dag að starfið getur verið mjög vandasamt. Til dæmis mætti nefna að upp koma siðferðislegar spurningar um vörn sakborninga sem viðkomandi lögmaður veit að eru sekir. Í 20. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 kemur fram að lögmanni sé skylt að taka við skipun eða tilnefningu í opinberu máli sem verjandi. Reyndar er þetta ekki jafn afdráttarlaust í framkvæmd en flestir lögmenn þurfa einhvern tímann á starfsferlinum að taka að sér skjólstæðinga sem eru vafasamir einstaklingar, fjársvikarar, ofbeldismenn, nauðgarar eða morðingjar.
Í bók sinni Frelsið sem kom út árið 1859, minnist John Stuart Mill á hvernig farið var að því að gera einstaklinga að dýrlingum hjá kaþólsku kirkjunni á 12. öld. Jón Ólafsson sem þýddi bókin á 19. öld skýrði þetta betur í neðanmálsgrein í þýðingunni. Þar kemur fram að þegar guðsmaður deyr geti páfi eftir bráðabirgða rannsókn á æviferli hans leyft að veita honum dýrkun sem sveitadýrlingi eða landsdýrlingi. Eftir 50 ár er hægt að taka hann í dýrlingatölu. Þegar það er gert er settur rannsóknarréttur til að kanna tilvonandi dýrling og hvort hann sé verður þess að vera tekinn í dýrlingatölu. Við rannsóknarréttinn er skipaður talsmaður hins látna einstaklings (Advocatus Dei) sem á að færa rök fyrir tilkalli hans til dýrlingsdóms. Til að tryggja jafnræði aðila er djöflinum einnig skipaður talsmaður (Advocatus Diaboli) til að véfengja kraftaverkin og koma með rök gegn því að einstaklingurinn komist í dýrlingatölu. Þessi framkvæmd kemur reynar töluvert á óvart þar sem kaþólska kirkjan telst tæplega hafa verið réttlát stofnun í gegnum aldirnar. Tekið er fram að talsmennirnir skulu vera trúaðir einstaklingar og kemur ekki fram að þeir þurfi að vera lögfræðimenntaðir. Reyndar má færa ágæt rök fyrir því að lögvernduð starfsréttindi skipti ekki máli í eilífri baráttu góðs og ills.
Þegar allt kemur til alls mega lögmenn e.t.v. prísa sig sæla yfir skjólstæðingum sínum þegar litið er til þeirra manna sem þurfa að taka að sér sjálfan djöfulinn sem skjólstæðing! Þessir málsvarar djöfulsins eru strangtrúaðir einstaklingar sem hljóta að takast á við gífurlegan siðferðisvanda og eru svo sannarlega ekki öfundsverðir í störfum sínum.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020