Það er gaman að ræða við róttæka vinstrimenn um líf mitt hinum megin við Járntjaldið. „Þetta hlýtur að hafa verið ömurlegt,“ segja þeir skilningsríkir. „En hvernig lýðræði búum við við hér á Vesturlöndum?“ spyrja þeir svo heimspekilega og hella sér út í auðhringaeintalið. Þetta er svipað og maður sem situr að snæðingi á Hótel Borg og útskýrir að hungur sé afstætt, það sé hugarástandið sem ráði hvort okkur finnist við svöng. Aðrir vinstrimenn kunna betur að meta okkar vestræna lýðræði en misskilja þá í staðinn ástæður hrunsins. Í grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist á Múrnum þann 19.11 síðastliðinn má meðal annars finna þessa setningu:
Þetta er frekar algeng skoðun meðal sósíalista á Vesturlöndum. Það má skilja sem svo að ástæðan fyrir því að „sósíalisminn“ gekk ekki upp sé sú að ríkisstjórnir landanna hafi verið verið harðstjórnir sem virtu ekki mannréttindi. „Það sem gerðist í A-Evrópu var ekki sósíalismi, þetta var fasismi,“ segja menn gjarnan við mig.
Hvað var það nákvæmlega sem var svona gríðarlega „ósósíalískt“ við þessi ríki? Tökum Pólland sem dæmi. Öll menntun var ókeypis. Öll læknisþjónusta var ókeypis. Launamunur var ekki mikill. „Hvort hann stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið,“ var gjarnan sagt. Fólk borgaði ekki tekjuskatt því ríkið var hvort sem er næstum því eini vinnuveitandinn. Rafmagn var framleitt í ríkisreknum raforkuverum. Bílar voru framleiddir í ríkisreknum bílaverksmiðjum. Víða um sveitir var komið upp ríkisreknum samyrkjubúum. Þessar stofnanir áttu að sjá um að framleiða nauðsynjavörur fyrir almenning og greiða arð til ríkissjóðs.
Nú er það vissulega rétt að hluti hrunsins skrifast á hið áðurnefnda lögregluríki. Það er hins vegar ekki rétt að segja að skortur á málfrelsi og félagafrelsi hafi verið aðalástæðan. Það er sér í lagi afar villandi að halda því fram að umrætt hrun hafi „fyrst og fremst“ snúist um þessi lýðréttindi, eða skort á þeim.
Það sem hinn dæmigerða Pólverja dreymdi um á tímum kommúnismans var að klæðast gallabuxum, drekka kók, aka um á vestrænum bíl, eiga gervihnattadisk og geta keypt Lego-kubba handa börnunum. Það er fyrst og fremst þetta sem hinu miðstýrða markaðshagkerfi láðist að uppfylla. Bann við umfjöllum um einstaka þætti þjóðlífsins er kannski íþyngjandi fyrir blaðamenn og sögukennara en snertir ekki svo mikið hinn venjulega verkamann.
Þeir Pólverjar sem flúðu til Bandaríkjanna gerðu það sjaldnast til að gerast dálkahöfundar eða skáld. Flestir urðu „bara“ venjulegir launamenn og gátu farið að drekka kók og ganga í Levi’s buxum. Ég get nefnilega fullyrt af minni eigin reynslu að það sem Pólverjum fannst best við Vesturlönd og kapítalisma var það hversu miklu flottara allt var fyrir vestan. Flottari flugvellir, flottari búðir, flottari bílar.
Það sem orsakaði hrunið var því „fyrst og fremst“ einmitt hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki tryggt fólki sama vöruúrval og í ríkjum kapítalismans. Hjá okkur voru allir bakpokar rauðir, öll tjöld gul, allar lestir brúnar og öll húsin grá. Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið.
Það er hins vegar skiljanlegt að sósíalistar á Vesturlöndum eigi erfitt að sætta sig við þessar staðreyndir. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við að Hrunið sannaði einmitt óskilvirkni miðstýrðs markaðar. Slíkt væri erfiður biti að kyngja fyrir fólk sem telur enn að Ríkið sé á mörgum sviðum færara en einstaklingarnir til að veita þjónustu, ekki bara menntun og heilbrigðisþjónustu, heldur einnig verslun og bankaþjónustu.
Því beina þeir athyglinni frá þeim efnahagslega boðskap atburðanna fyrir 13 árum síðan og gera aðalástæður hrunsins aðrar en þær sem fólkið í þessum löndum hafði. Ég er, enn og aftur, ekki að segja að mannréttindi hafi ekki skipt neinu máli í baráttunni við kommúnismann en þær voru ekki aðalástæðan fyrir hruninu. Það var hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki uppfyllt væntingar neytenda.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021