Hvernig stendur yfirleitt á því að goðsögnin um útlenska atvinnuþjófinn dúkki upp meðal fólks? Alls staðar þar sem útlendingar finnast gerist það af og til að þeir fái störf sem einhverjir innfæddir sóttu einnig um. Frumbyggjarnir segja sögu sína og eftir því sem tilfellunum fjölgar er líklegra að fleiri aðhyllist kenningar um erlenda atvinnuræningjann.
En stöldrum aðeins við. Því verður ekki neitað að í ofangreindu tilfelli er útlendingur vissulega að fá starf sem Íslendingur hefði fengið ella. Er þetta þá kannski bara rétt eftir allt saman? Eru útlendingar að taka atvinnu af Íslendingum?
Ranghugmyndin felst í þeirri langlífu kreddu um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind. Auðvitað gerist það að útlendingar fá störf sem Íslendingar gætu verið að vinna. En það minnkar ekki möguleika Íslendinga á því að fá vinnu. Svipað og tilkoma kvenna á vinnumarkaðnum hefur minnkað möguleika karlmanna á því að fá gott starf.
Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.
Í Steglunni í þættinum Silfur Egils er fólk gjarnan spurt: „Fleiri innflytjendur til landsins?“ Þetta er svolítið asnaleg spurnig því við getum ekki flutt fólk hingað nauðugt eða alfarið bannað því að koma. Stjórnmálamenn geta ekki ráðið því beint hve margir setjast hér að, einungis er hægt að gera það miserfitt.
Sumir hafa svarað ofangreindri Stegluspurningu á eftirfarandi hátt: „Já, ef við getum tekið vel á móti þeim.“ Skrýtið þetta „ef“ hjá fimmtu ríkustu þjóð í heimi. Eða kannski halda menn að útlendingarnir þurfi einhverja sérstaka „móttöku“? Félagslegt húsnæði, skyldunámskeið í íslensku eða persónulegan ráðgjafa frá ríkinu?
Íslenskt þjóðfélag getur hæglega bætt mörgum einstaklingum til viðbótar. Þar sem líklegt er að nýfæðingum meðal Íslendinga fækki á næstu árum líkt og gerst hefur annars staðar í V-Evrópu þurfum við ferskt blóð inn í landið. Það er nóg að fólki í heiminum sem vill lifa heiðvirðu lífi í ríku velferðarríki. Ísland er gott land til að búa í með blómstrandi atvinnulífi og skilvirkri stjórnsýslu. Það er okkar móttaka.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021