Fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun var þingfest refsimál á hendur tæplega fertugum karlmanni sem sakaður er um að hafa valdið dauða níu mánaða drengs sem var í umsjá hans. Er manninum gefið að sök að hafa hrist drenginn svo harkalega að hann lést tveimur dögum síðar af áverkum sínum. Neitaði maðurinn sakargiftum og telst hann því saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Þess væri óskandi að viðkomandi reyndist saklaus og að um væri að ræða hörmulegt slys. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum um þetta mál er enginn vegur fyrir undirritaðan að leggja mat á sekt og sakleysi í þessu máli. Hins vegar er full ástæða til að gera alvarlega athugasemdir við málatilbúnað ákæruvaldsins.
Ákæruskjalið í málinu verður ekki lesið á annan veg en þann, að manninum sé gefið að sök að valdið dauða litla drengsins með líkamlegu ofbeldi. Mann rekur síðan í rogastans þegar ákæruvaldið heimfærir þennan verknað undir refsiákvæði, en maðurinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það ákvæði hljóðar svo:
Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.
Ákæran afmarkar refsirammann og eins og sjá má á maðurinn yfir höfði sér í mesta lagi sex ára fangelsi reynist hann sekur. Fjölmargir dómar hafa fallið þar sem sakfellt er fyrir brot á 215. gr. alm. hgl. en algengast er að ákvæðinu sé beitt þegar manntjón verður í umferðarslysum.
Eins og greinir í ákæruskjalinu má ljóst vera að ákæruvaldið telur að líkamsárás sökunautsins hafi valdið dauða barnsins. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig saksóknara dettur í hug að fella hina meintu háttsemi mannsins undir 215. gr. og binda þar með hendur dómsins þegar kemur að refsingu, ef maðurinn reynist vera sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.
Í 211. gr. almennra hegningarlaga segir, að hver sá sem svipti annan mann lífi, skuli sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt. Skilyrði þess að hægt sé að fella háttsemi undir þetta lagaákvæði er að ásetningur sökunauts hafi náð bæði til verknaðar og alfeiðingar verknaðar. Í þessu tilviki þyrfti því að sanna að maðurinn hafi í raun hrist barnið (sem þarf líka að sanna miðað við fyrirliggjandi ákæru), að hann hafi ætlað sér að hrista barnið og að með því hafi hann ætlað sér að valda dauða þess. Það er spurning hvort ekki hefði átt að ákæra fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Þetta kann einhverjum að þykja óhófleg grimmd og refsigleði og en við skulum skoða málið örlítið nánar.
Í fyrsta lagi er alveg ljóst að börn njóta sömu verndnar refsilaga og aðrir. Líkamsárás á þau er því alveg jafn alvarleg í augum laganna og aðrar líkamsárásir. Ekki verður annað lesið út úr ákæruskjalinu en að líkamsmeiðing hafi átt sér stað með sjálfráðum frumverknaði ákærða og því má fulljóst vera að ásetningur hafi náð til verknaðar, takist á annað borð að sanna að líkamsmeiðing hafi verið að völdum ákærða. Þá er komið að spurningunni um ásetning til afleiðingarinnar. Ekki vil ég gefa viðkomandi að sök að hafa vísvitandi ætlað sér að valda dauða litla drengsins eða litið á það sem óhjákvæmilega afleiðingu gjörða sinna. Þetta hæsta stigs ásetning, oft kallað beinn ásetningur. Hann er því út úr myndinni, sem og aukinn ásetningur, sérafbrigði ásetnings og á við um það sem í daglegu tali mætti kalla kaldrifjað morð.
En önnur stig ásetnings hljóta að koma til greina. Þar ber fyrst að nefna svokallaðan líkindaásetning. Hann felst í því að hinn brotlegi álítur að afleiðingin kunni að koma fram, en hann hefði engu að síður framið verknaðinn, þótt hann hafði talið víst, að afleiðingin kæmi fram. Sönnun í þessum tilvikum er afskaplega erfið, því um er að ræða huglæga afstöðu hins brotlega til verknaðarins. Við skulum því líka segja að þetta stig ásetnings eigi varla við, nema auðvitað ákæruvaldið geti lagt fram gögn sem bendi til annars.
Þá er komið að lægsta stigi ásetnings sem í refsirétti er nefndur dolus eventualis. Hann felst í því að hinn brotlegi álítur að afleiðing kunni að koma fram en hann lætur sér engu að síður í léttu rúmi liggja hvort hún komi fram. Oft er erfitt að greina lægsta stig ásetnings frá efri mörkum gáleysis. Í þessu tiltekna dæmi er um að ræða lítinn og viðkæman líkama barns og gerandinn er fullvaxinn karlmaður. Það má því augljóst vera að atlaga gegn barninu er líkleg til þess að valda því skaða. Níu mánaða gamalt barn er rétt yfirleitt rétt nýbyrjað að skríða, tiltölulega nýbúið að ná tökum á því að halda höfði. Hverjum manni má því vera ljóst hversu viðkvæmur slíkur líkami er og sérstaklega þeir sem atvinnu hafa af því að annast börn á þessum aldri. Mín niðurstaða er sú að hér sé um að ræða lægsta stig ásetnings og því hefði átt að ákæra aðallega fyrir 211. gr. almennra hegningarlaga.
Til vara hefði mátt krefast refsingar fyrir brot á 218. gr. almennra hegningarlaga:
Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.
Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.
Hér er það einkum niðurlag 2. mgr. sem horft er til. Að ofan er fjallað um að atlaga mannsins gegn barninu, eins og henni er lýst í ákæruskjali, verði að skoðast sem líkamsárás í þessu samhengi. Þeir eru eflaust einhverjir ekki geta fallast á að lægsta stig ásetnings hafi náð til afleiðingarinnar og að þar með sé 211. gr. út úr myndinni. Það er hins vegar reginmunur á manndrápi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. og manndrápi skv. 211. gr. Til háttsemi megi færa undir síðarnefndu greinina þarf ásetningur að ná til bæði verknaðar og afleiðngar, eins og að ofan er lýst. En til að beita megi 218. gr er nægilegt að ásetningur hafi staðið til verknaðarins sjálfs, og gildir þá einu hvort ásetningur hafi staðið til afleiðingar.
Nú skal það viðurkennt að ákæruvaldið er í bestri aðstöðu til að meta fyrir hvað ákært skuli hverju sinni. Það skal einnig haft hugfast að þó svo að á Íslandi ríki að meginstefnu til svokallað ákæruréttar, þá ber ákæruvaldinu engu að síður að horfa bæði til þess sem lýtur að sakleysi hins ákærða og því sem lýtur að sekt hans. Aftur móti ber ákæruvaldið mjög ákveðna ákæruskyldu og það er hlutverk verjenda að halda uppi vörnum. Það vekur furðu að ákæruvaldið skuli ekki leggja ofangreind álitaefni í dóm og gefa réttlætinu þar með svigrúm til að ná fram að ganga.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021