Deiglupenna í 8. sæti

Einn Deiglupenna, Soffía Kristín Þórðardóttir, er á meðal frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þó Soffía sé yngst þeirra sem gefa kost á sér býr hún yfir margvíslegri reynslu. Hún óskar eftir stuðningi sjálfstæðismanna í 8. sæti að framboðslista flokksins í vor.

Í dag verður kosið á sex kjörstöðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sjálfstæðismenn í Reykjavík velja á milli sautján einstaklinga í tíu efstu sætin á lista fyrir alþingiskosningar í vor. Sem kunnugt er hafa allir þingmenn flokksins gefið kost á sér að nýju, en einnig hafa nokkrir nýliðar boðið sig fram, og þeirra á meðal sex sem teljast til ungliða flokksins.

Þeirra á meðal er Soffía Kristín Þórðardóttir, sem hefur verið í hópi Deiglupenna í rúmt ár. Soffía sat í 14. sæti á lista flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og hefur því verið varaþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili. Hún hefur nú gefið kost á sér í öruggt sæti og óskar eftir stuðningi sjálfstæðisfólks í 8. sæti. Helstu stefnumál Soffiu má kynna sér á framboðsvef hennar, www.soffia.is.

Soffía hefur gegnt ýmsum forystustörfum í starfi ungra sjálfstæðismanna á undanförnum árum. Rétt rúmlega tvítug var hún varaformaður Heimdallar og veturinn 2000-2001 var hún formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra Stúdenta, og átti hún stóran þátt í því uppbyggingarstarfi sem skilaði félaginu langþráðum sigri nú í vor. Einnig hefur Soffía bæði starfað sem framkvæmdastjóri og formaður NKSU, sem er félag hægri sinnaðra stúdenta á norðurlöndunum. Ennfremur sat hún í stjórn SUS 1999-2001.

Nú á síðustu dögum hafa fáránlega vægir dómar í kynferðisafbrotamálum vakið nokkra athygli. Soffía lagði frá upphafi sinnar kosningabaráttu áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn mótaði heildstæða refsistefnu. Í málefnaskrá hennar stendur m.a:

Þannig gefa skilaboð löggjafans til dómstóla, sem gera ráð fyrir 16 ára hámarksrefsingu fyrir nauðgun, tilefni til að álykta sem svo að löggjafarsamkoman telji nauðgun vera mjög alvarlegan glæp. Því geta allir verið sammála. Í ljósi þessa er hins vegar furðulegt að sá sem er dæmdur fyrir áralanga kynferðismisnotkun á barni getur að hámarki dæmst til 12 ára fangelsisvistar – og það sem meira er – misnotkun á barni telst skv. lögunum minna alvarleg ef um ættingja er að ræða. Hámarksrefsing fyrir ættingja í slíku tilfelli er aðeins 10 ára fangelsisvist.

Af öðrum málum sem Soffía leggur áherslu á má nefna afnám tolla, aðhald í ríkisrekstri, lækkun skatta, afnám styrkja í landbúnaði, nýjar lausnir í heilbrigðismálum, friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.

Þó Soffía sé yngst þeirra sem gefið hafa kost á sér býr hún að margvíslegri reynslu sem mundi nýtast vel í þingstörfum. Samstarfsmenn hennar lýsa henni sem heiðarlegum, traustum, ábyrgum og dugmiklum einstaklingi. Ritstjórn Deiglunnar lýsir yfir fullum stuðningi við framboð hennar og hvetur alla þá sem vilja Sjálfstæðisflokknum heilt að veita henni stuðning í 8. sætið.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)