Sala hlutafjár ríkissjóðs í Landsbankanum og Búnaðarbankanum er tvímælalaust eitt stærsta gæfuspor stjórnvalda á yfirstandandi kjörtímabili. Með sölunni hefur smiðshöggið svo að segja verið rekið á umbreytingu íslensks fjármálamarkaðar úr handvirku haftakerfi í frjálsan og eðlilegan markað.
Fyrir ríkissjóð skiptir líklega mestu það þjóðhagslega hagræði sem af sölunni hlýst. En menn hafa hins vegar einblínt mjög á það fé sem ríkissjóður fékk í sinn hlut fyrir hlutabréfin í bönkunum. Málflutningur ýmissa manna verður ekki skilinn öðruvísi en svo að að þeir líti á andvirði bankasölunnar sem lottóvinning. Þegar eru komnar fram nægilega margar útgjaldahugmyndir til að klára söluandvirðið.
Í Deiglupistli fyrir rúmum tveimur árum, eða þann 12. maí árið 2000, fjallaði ég um sölu ríkiseigna. Þar sagði meðal annars:
Andvirði [ríkiseignanna] er ekki happdrættisvinningur heldur fjármunir sem ríkið á bundið í þessum fyrirtækjum. Ríkið hagnast því í raun ekkert á sölu þeirra, því engin viðbótareign verður til. Hins vegar mun hugsanleg sala breyta eignum í peninga og þá peninga á að fara með eins og aðra peninga sem ríkisvaldinu áskotnast. Annað hvort hefði átt að greiða niður skuldir ríkissjóðs með þeim, eða nota svigrúmið til að lækka skattbyrði borgaranna.
Það væri mikið fláræði hjá skuldsettum manni að selja húsið sitt og verja söluandvirðinu í sólarlandaferðir og snjósleða, en hirða ekki um að greiða þær skuldir sem á húsinu hvíldu við söluna. Hætt er við að slíkur maður þyrfti á hjálp að halda hjá Ráðgjafastofu heimilanna.
Sem betur fer hyggjast stjórnvöld verja stærstum hluta þeirra fjármuna sem losnuðu við sölu hlutabréfa í bönkunum til niðurgreiðslu erlendra skulda. Ef þeir sem nú svífa um á lottóskýi færu með hagstjórnina er borin von að jafnvel Ráðgjafastofa heimilanna gæti komið fyrir þá vitinu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021