Rauðu strikin

Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að íslenska þjóðin stendur í miklum átökum um þessar mundir. Baráttan við hin svokölluðu rauðu strik er í hámæli og af orðræðu forystumanna ASÍ af dæma er íslenska þjóðin hreinlega komin í einhvers konar styrjöld.

Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að íslenska þjóðin stendur í miklum átökum um þessar mundir. Baráttan við hin svokölluðu rauðu strik er í hámæli og af orðræðu forystumanna ASÍ af dæma er íslenska þjóðin hreinlega komin í einhvers konar styrjöld.

Grétar Þorsteinsson, formaður ASÍ, sagði t.a.m. í fréttum á RÚV á fimmtudaginn, eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um gjaldskrárlækkanir sínar, að þetta væri skref í rétta átt. Svo sagði hann:

„Það er kannski fyrri hálfleikur sko, síðan er bara næsta törn eru bankar og fjármálafyrirtæki, plastkortafyrirtæki, tryggingafélög, olíufélög og væntanlega finnum við einhverja fleiri. Auk þess sem er að fara í gang mjög kröftugt verðlagseftirlit. Allir sem ég var að nefna þarna eru í raun stórveldi í þessu samfélagi þegar maður er að velta þessum hlutum fyrir sér. Og þeir hafa, þeir eru ekkert í lakari stöðu heldur en þess vegna sveitarfélögin eða þeir sem að eru stærstir á matvörumarkaði. Það er auðvitað bara þannig. Annað hvort eru bara menn með í þessu liði eða ekki sko.“

Minnir málflutningur Grétars óneitanlega á orð George W. Bush forseta Bandaríkjanna: “Either you´re with us or you´re with the terrorists”. Það er bara þannig – annað hvort eru menn í liðinu eða ekki!

Þessi hystería sem gripið hefur um sig varðandi rauðu strikin er ákaflega sorgleg. Í fyrsta lagi er það ámátlegt að á Íslandi annó 2002 sé skilningur á hagfræði svo takmarkaður að menn komist upp með að ætla að skipa þjóðinni í flokka eftir því hvort þeir taki þátt í skammtímalausnum og handaflsaðgerðum sem þessum. Í öðru lagi er verið að bjóða heim þeirri hættu að eðlileg verðþróun raskist með tilheyrandi brambolti þegar þjóðarátakinu gegn verðbólgudraugnum lýkur. Halda menn virkilega að það sé einhver lausn að biðja menn um að halda í sér fram í maí – eða er það ekki þannig að þegar þeir halda lengi í sér þá þurfa þeir bara að pissa meira þegar þeir loksins komast á klósettið.

Í þriðja lagi er þetta leikrit sorglegt vegna þess að það felur í sér anda liðinna tíma – tíma sem íslenska þjóðin ætti ekki að óska eftir að upplifa á ný. Markaðshagkerfið og frelsi í viðskiptum og verðlagningu hefur reynst Íslandi, eins og öllum öðrum hagkerfum, stórum og smáum, betur en nokkuð annað fyrirkomulag. Eini markaðurinn sem ennþá þráast við er markaðurinn fyrir vinnuafl en ofurvald verkalýðsfélaga hér á landi er að líkindum eitt mesta efnahagsvandamál þjóðarinnar. Ef forystumönnum ASÍ og SA er alvara um að bæta kjör og lífsgæði í landinu þá ættu þeir að keppast að því að minnka vald sitt, færa það nær einstaklingnum og leyfa markaðsöflunum að hafa sinn gang.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)