Það þarf enginn að velkjast í vafa um að rétti okkar til friðhelgis einkalífs er ógnað. Sífellt fleiri staðir eru vaktaðir af myndavélum og flest skiljum við eftir ítarlega slóð um hegðunarmynstur okkar með notkun rafrænna greiðslumiðla. Engin skyldi vanmeta þá hættu sem í þessu felst.
Þegar fólk þarf að taka afstöðu til þess hvort það meti meira að vera öruggt gagnvart líkamlegri hættu og ofbeldisverkum, eða að tryggt sé að einkalíf þess sé öruggt þá telja flestir að rétt sé að fórna hluta friðhelginnar í staðinn fyrir öryggið. Þetta hefur komið fram í fjölmörgum könnunum í Bandaríkjunum síðan 11. september-árásirnar áttu sér stað fyrir rúmi ári.
Sú afstaða fólks að persónuvernd sé léttvæg í samanburði við aðra öryggishagsmuni er ákaflega skiljanleg. Sterkasta tilfinningin er auðvitað sú að vilja halda lífi – og fólk er reiðubúið að færa ýmsar fórnir til þess að tryggja öryggi sitt – jafnvel fórna ákveðnum hlutum sem það myndi undir venjulegum kringumstæðum ekki láta sér detta í hug að það gæti verið án. Að sama skapi er líklegt að dýrafriðunarsinni myndi ekki vera neitt sérstaklega mikið á móti því að skjóta tígrisdýr ef það væri í þann mun að fara rífa hann á hol.
Mikilvægt er að allur almenningur sé meðvitaður um hvaða afleiðingar sinnuleysi í þessum málaflokki getur haft. Rík tilhneiging er til að treysta stjórnvöldum næstum því í blindni. Stjórnvöld hafa nú þegar í krafti ýmissa lagaákvæða mikla möguleika til eftirlits með lífi borgaranna. Því eftirliti hefur verið komið upp með mörgum smáum skrefum, sem hvert um sig hefur þótt rökrétt og eðlilegt á hverjum tíma.
En skerðing réttinda er hin sama hvort sem hún gerist í einu stóru skrefi eða mörgum smáum. Þetta verður að hafa hugfast í framtíðinni þegar upp koma hugmyndir um frekari skerðingu á friðhelgi einkalífsins, þótt hún kunni að virðast smávægileg í hvert og eitt skipti. Ef við gerumst sek um ístöðuleysi í þessum efnum, þá munum við vakna upp við vondan draum fyrr en seinna. Hér er um háalvarlegt mál að ræða, því án þess að friðhelgi einkalífsins sé tryggð, verður ekki hægt að tala um einstaklingsfrelsi í reynd.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020