Gerð Hvalfjarðarganga markaði ákveðin tímamót í samgöngumálum hér á landi. Þau eru gerð og rekin af einkaaðilum og eru borguð upp með vegatolli í stað skattpeninga. Loksins voru notendur samgöngumannvirkja byrjaðir að greiða fyrir byggingu þeirra en ekki hinn almenni skattgreiðandi. Þetta voru því mikil tímamót.
Margir vonuðu að þarna væri ríkið að gefa tóninn. Ríkisstjórnin væri byrjuð að draga úr óarðbærum fjárfestingum og leyfði þess í stað einkaframtakinu að njóta sín í arðbærum framkvæmdum. Loksins væri búið að stöðva landbyggðarhagsmunapotið á Alþingi þar sem menn vildu bora göng í gegnum minnstu hóla og hæðir svo framarlega sem þeir væru í eigin kjördæmi. Að sjálfsögðu á kostnað almennings í landinu.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda var nefnilega bundinn endir á gífurlegan fjármokstur til jarðgangagerðar sem hafði viðgengst á níunda áratugnum. Það var þægilegt til þess að vita að alþingismennirnir okkar máttu ekki lengur hygla eigin kjördæmum með slíkum milljarða bittlingum. Ástandið batnaði enn meira þegar ríkisstjórnin ákvað að fela einkaaðilum að gera og reka Hvalfjarðargöng. Þessi nýja leið er einfaldlega skynsamlegust fyrir slíkar framkvæmdir.
En þá kom rothöggið. Nýverið ákvað ríkistjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokks að hefja gerð tveggja jarðganga. Engir einkaaðilar eiga að koma að þessu og enginn vegatollur. Bara gömlu góðu skattpeningarnir. Reyndar er það ekkert skrítið að einkaaðilar vildu ekki taka þetta að sér þar sem útilokað er að göngin skili arðsemi.
Það var eins og við mannin mælt. Ákveðnir landsbyggðarþingmenn fóru að æsast þegar þeir sáu að búið var að opna aftur fyrir jarðgangasukk að færeyskum sið. Gísli S. Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ákvað að ríða á vaðið. Þingmaðurinn kom hins vegar ekki með tillögu um nýjan hól til að bora í gegnum. Gísli vill að ríkið taki yfir rekstur Hvalfjarðarganga og hleypi mönnum frítt í gegnum þau. Hvernig á að klára að borga fyrir göngin? Nú auðvitað með skattpeningunum.
Þingmaðurinn kom með fyrirspurn um þetta efni til samgöngumálaráðherra þar sem hann tuðaði m.a. yfir því að íbúar kjördæmisins hans væru að borga stóran hlut ganganna. Aðspurður í fjölmiðlum hvort íbúar ákveðinna sveita innan kjördæmisins hans væru ekki eimitt þeir sem græddu mest á göngunum svaraði Gísli því til að menn séu að grafa mun dýrari göng t.d. Fáskrúðsfjarðargöng og engin gjaldtaka væri fyrirhuguð þar! Þetta réttlætir að mati þingmannsins að rústa því fyrirmyndarfyrirkomulagi sem er á rekstri Hvalfjarðarganga.
Þessi frumstæða jafnræðispæling þingmannsins er góð og gild en misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna mega aldrei vera notaðar sem röksemd til að breyta góðri ákvörðun yfir í slæma. Reyndar hefur jafnræði aldrei ríkt í samgöngumálum á Íslandi. Það vita allir að höfuðborgarsvæðið hefur alltaf verið svelt hvað varðar fjárframlög til samgöngumála.
Vonbrigðin urðu náttúrulega mikil þegar ríkisstjórnin féll frá fyrri stefnu og byrjaði að skipuleggja byggingu tveggja, nýrra, óarðbærra jarðganga. Þetta er þvílíkt skref afturábak. Öll umræða um Hvalfjarðargöngin hefur verið með jákvæðum hætti og er það alveg með ólíkindum þegar alþingismenn reyna að eyðileggja það sem kemur af viti frá Alþingi. Afstaða þingmannsins í þessu máli er stóralvarlegt mál. Hann virðist vera tilbúinn að leggja til eyðileggingu á góðu málefni fyrir eigin vinsældir innan kjördæmisins. Fórna hagsmunum almennings fyrir eigin skammtímagróða. Svoleiðis gera menn bara ekki.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020