Úrslitin hjá Samfylkingunni í Reykjavík hljóta að vekja mesta athygli hjá flestum. Þar varð Össur Skarphéðinsson efstur, enda sá eini sem sóttist eftir stuðningi í efsta sæti. Niðurstaðan hlýtur þó að valda honum áhyggjum þar sem einungis rúmur helmingur (55%) flokksmanna ákvað að veita honum stuðning til þess að leiða listann. Til samanburðar má geta þess að þegar Sjálfstæðisflokkurinn háði síðast prófkjör í október 1994 fékk Davíð Oddsson tæplega 80% stuðning flokksmanna. Niðurstaðan hjá Össuri, sem hafði einn gefið kost á sér í fyrsta sætið er einnig lakari heldur en hjá Guðmundi Árna Stefánssyni sem atti harða baráttu við Rannveigu Guðmundsdóttur um efsta sætið í Suðvesturkjördæmi.
Kosningin í annað sæti listans var mjög áhugaverð. Þar tókust á Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Jóhanna sigraði í þessum slag með nokkrum yfirburðum, hlaut 1878 atkvæði, tæplega 700 atkvæðum fleiri en Bryndís Hlöðversdóttir hlaut í 3. sætið. Jóhanna hefur sýnt að hún er erfið viðureignar í prófkjörum og virðist sem hún sé eins konar “flokkur innan flokksins” því víst þykir að formaður flokksins, og flestir forystumenn hans, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi mun frekar viljað sjá Bryndísi leiða hitt kjördæmið á móti Össuri. Ljóst er að Bryndís er í að mörgu leyti mun markaðssinnaðri stjórnmálamaður – þekkt af yfirveguðum málflutningi og minna fyrir lýðskrum og tilefnislítil upphlaup heldur en keppinautar hennar í þessu prófkjöri. Þá verður það einnig að teljast til tíðinda í hinni Evrópusinnuðu Samfylkingu að Jóhanna Sigurðardóttir, sem leiðir listann í Reykjavík – suður, er algjörlega óskrifað blað hvað varðar afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Jakob Frímann Magnússon er sagður hafa varið um 10 milljónum króna í prófkjörsbaráttu sína, eða um 6 þúsundkalli á hvert atkvæði sem hann hlaut. Vera má hið upprunalega aþenska lýðræði gæti hentað honum betur þar sem menn gátu einfaldlega selt atkvæði sín – en slíkt er auðvitað ekki mögulegt á Íslandi, nema á aðalfundum Ökonómíu, félags hagfræðinema í Háskóla Íslands. Í Silfri Egils fyrr í dag bar hann sig ákaflega vel og undirstrikaði að kjósendur í prófkjörinu hefðu með vali sínu verið að gefa skilaboð til flokksins um að harðari vinstri stefna væri meira metin en hægri kratisminn sem Jakob Frímann virðist einna helst aðhyllast.
Sigurvegarar prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík eru vitaskuld þingmennirnir fimm en sterk útkoma þeirra Marðar Árnasonar og Helga Hjörvar, sem báðir eru í róttækari kantinum, vekur einnig eftirtekt. Ekki er ólíklegt að þeir tveir hafi notið góðs af kosningabaráttu Jóhönnu Sigurðardóttur. Ungliðinn í hópnum, Ágúst Ólafur Ágústsson, náði mjög góðum árangri og endaði í áttunda sæti. Ljóst er að Ágúst er nú orðin ein helsta vonarstjarna flokksins og virðist sem hann eigi velvild allra innan flokksins. Ágúst er án vafa sá maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík sem er hallastur undir markaðsstefnu. Sigur hans í prófkjörinu er eina huggun hægrikrata innan Samfylkingarinnar.
Í Suðvesturkjördæmi urðu þau tíðindi, sem áður segir, að Guðmundur Árni Stefánsson vann mjög sannfærandi sigur á Rannveigu Guðmundsdóttur í baráttunni um efsta sætið. Þetta er mikil uppreisn æru fyrir Guðmund Árna og líklegt að hann hafi stimplað sig verulega inn á nýjan leik. Ef í ljós kemur að Margrét Frímannsdóttir hafi misst efsta sætið á Suðurlandi í prófkjörinu þar þá er ljóst að Guðmundur Árni er mjög líklegur kandídat í að taka við varaformennsku í flokknum, og jafnvel formennsku síðar.
Ekki er ólíklegt að fylgi Samfylkingarinnar í Suðvestrinu verði býsna gott og því á Katrín Júlíusdóttir, sem varð í fjórða sæti, bærilega möguleika á að verða þingmaður að afloknum næstu Alþingiskosningum.
Heilt á litið má segja að stóru fréttirnar eftir prófkjör Samfylkingarinnar í gær séu tvær. Annars vegar hefur Samfylkingin greinilega markað sér skýrar stöðu sem vinstri flokkur, sem á frekar í baráttu við Vinstri græna heldur en Sjálfstæðisflokkinn um fylgi sitt. Í öðru lagi undirstrikar árangur núverandi þingmanna að pólitíska tregðulögmálið er ákaflega sterkt innan Samfylkingarinnar og gera má ráð fyrir mjög lítilli endurnýjun á þingliði flokksins. Þetta hlýtur að vera flokksmönnum nokkuð áhyggjuefni enda hafa raddir um að þörf sé á uppstokkun í þingmannaliðinu verið mjög háværar á síðustu árum.
Næsta prófkjörshelgi er 22. og 23. nóvember nk. þegar tekist verður á um skipan framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar hafa 17 manns gefið kost á sér, þar af allir níu þingmenn flokksins. Áhugavert verður að sjá hvort sama tregðulögmál verði ríkjandi þar eða hvort “íhaldið” reynist framsæknara í vali sínu heldur en nútímalegu jafnaðarmennirnir.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009