Miklar umræður hafa skapast undanfarna daga í Háskólasamfélaginu, og þá sérstaklega innan verkfræði- og raunvísindadeildar, vegna ummæla Rósu Erlingsdóttur í Ríkisútvarpinu. Þar sagði Rósa meðal annars: „[Auka þarf] þátt hug- og félagsvísinda í raunvísindum og draga úr þessum miklu stærðfræðikröfum sem að eru gerðar á 1. og 2. námsárinu. Og hafa þá frekar af því að það er einhver tilhneiging hjá þess hjá mörgum konum … að vera hræddar við stærðfræðina þannig að við drögum svolítið úr kröfunum á fyrstu námsárunum til þess að halda þeim inni í þessum greinum.”
Fundurinn í gær var gríðarlega vel sóttur þar sem hver blettur í salnum var nýttur. Menn brugði jafnvel á það ráð að klifra inn um glugga til þess að missa ekki af umræðunni. Sigurður Bryjólfsson, forseti Verkfræðideildar, fór yfir stöðu kvenna í deildinni og kom fram að hlutfall þeirra hefur vaxið úr 10% í 26% á síðustu 12 árum. Brottfall kvenna er einnig mun minna og meðaleinkun þeirra er almennt hærri en karla. Það virðist því skjóta nokkuð skökku við að einblína á stærðfræðifælni kvenna þegar hlutfall kvenna er skoðað, einhver önnur ástæða hlýtur að liggja hér að baki.
Konur eru almennt mun fjölmennari innan Háskóla Íslands og er verkfræðideildin sú eina þar sem karlmenn eru í meirihluta. Allir vita að konur eru um 99% allra hjúkrunarfræðinema, en færri vita að kynjamunurinn er næst mestur í stærstu deild skólans, félagsvísindadeild (1509 nemar), þar sem hlutfall karla er innan við 25%. Verkfræðideildin er aftur á móti eina deild skólans þar sem kynjamunur fer minnkandi, í öllum hinum fer hann vaxandi.
Ummæli Rósu hafa vakið mikil viðbrögð og hafa verkfræðinemar brugðist mjög illa við þeim. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem jafnréttisfulltrúinn beinir spjótum sínum að verkfræðideild og ekki í fyrsta sinn sem hún uppsker mikla óánægju kvenna í deildinni. Fyrir nokkrum árum hélt hún því fram að allir kvennkyns nemar í deildinni þyrftu á sérstökum aðstoðarmanni að halda og einnig barðist hún fyrir sérstökum aukatímum í stærðfræði fyrir konur. Einn frummælanda á fundinum var Guðrún Sævarsdóttir, doktor í efnavísindum. Gagnrýndi hún Rósu fyrir að draga upp staðlaðar myndir af kynjunum og sagði jafnréttisbarátunni engin greiði gerður með slíkri háttsemi.
Jafnréttisfulltrúi Háskólans virtist á fundinum eiga erfitt með að skilja sjónarmið verkfræðikvenna og spurði forundran út í sal: „Afhverju eru þið svona reiðar stelpur”. Fulltrúanum er fyrirmunað að átta sig á hversu niðurlægjandi mörg ummæli hennar eru sem hlýtur að vekja spurningar um stöðu hennar innan háskólasamfélagsins og hvort sjónarmið hennar séu ekki of kynjuð til þess að geta sinnt starfi sínu sem skyldi.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007