Matvælaverð á Íslandi er enn töluvert hærra heldur en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Þó hefur það hlutfall ráðstöfunartekna sem fjölskyldur verja í matvæli lækkað á síðustu árum. Mörgum þykir heppilegt að benda á þá staðreynd að ein verslunarekeðja hefur mikla yfirburði á smásölumarkaði þegar hátt matvælaverð er til umræðu.
Það er út af fyrir sig rétt að einokun leiðir til hærra vöruverðs en þó er mikilvægt að gera greinarmun á því hvort fyrirtæki hefur komist í yfirburðastöðu vegna velgengni í samkeppni eða vegna lögverndunar eða annars kyns samkeppnishafta. Í fyrra tilvikinu eru líkur á að hin skaðlegu áhrif verði minni þar sem öllum er heimilt að hefja innreið sína á viðkomandi markað telji þeir sig geta boðið betur heldur en markaðsráðandi aðilinn. Þetta sést t.d. ágætlega í flugsamgöngum þar sem farmiðaverð lækka reglulega vegna líklegrar eða yfirvofandi samkeppni á vissum flugleiðum.
Hvað matvælin varðar er hins vegar ljóst að hátt verð er að stórum hluta til komið vegna stjórnvaldsákvarðana. Háir tollar, vörugjöld og ýmis konar tæknilegar innflutningshindranir valda því að vöruverð t.d. á ýmsum landbúnaðarvörum er miklum mun hærra en annars staðar í Evrópu – og töluvert hærra en það þyrfti að vera.
Íslendingar geta hæglega tekið þá ákvörðun að hverfa frá þessari verndarstefnu og opnað markaðinn fyrir erlendri samkeppni. Samhliða þessu ætti ríkið að setja upp langtímaáætlun sem stuðlar að því að eyða ríkisstyrkjum í landbúnaði og búa íslenska bændur þannig undir það alþjóðlega samkeppnisumhverfi sem vonandi kemst á í heiminum eftir að næstu samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar lýkur.
Frjáls verslun er eitt af því fáa sem næstum allir hagfræðingar heimsins geta sameinast um sem eftirsóknarvert markmið. Auðvelt er að sýna fram á hversu mjög neytendur hagnast á frjálsri verslun og ólíkt mörgum hagfræðikenningum þá eru til fjölmörg dæmi sem sanna einmitt þetta. Íslendingar eiga að hafa það að markmiði með þátttöku sinni í alþjóðlegum stofnunum að stuðla að opnum mörkuðum á milli landa og vera til fyrirmyndar í þeim efnum. Sú afstaða er ekki einasta íslenskum neytendum afar hagstæð heldur stuðlar hún einnig að auknum tækifærum í fátækari ríkjum heims.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020