Stelpustærðfræði

Hugmyndir eru uppi um að draga úr kröfum í raunvísindanámi til að það henti stúlkum frekar. Sumir telja slíkar hugmyndir vera niðurlægjandi fyrir konur. Væri þá ekki sambærileg hugmynd að skylda stúdínur í hjúkrunarfræði og hugvísindagreinum til að klæðast efnislitlum skólabúningum til að auka hlutfall karla í slíku námi?

Jafnréttismál við Háskóla Íslands hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Sérstaklega eftir grein Albertínu Elíasdóttur, Eru karlmenn í útrýmingarhættu við Háskóla Íslands?, í septemberútgáfu Stúdentablaðsins, 4. tbl. 2002, en það er hægt að nálgast hanahér.

Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands hefur staðið fyrir átaki til að fjölga konum í námi við verkfræði- og raunvísindadeildir Háskólans. Í því skyni hafa m.a. verkfræði- og tölvunarfræðistúdínur heimsótt menntaskóla landsins undanfarið.

Rætt var við Rósu Erlingsdóttur jafnréttisfulltrúa HÍ í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Þar var haft eftir henni að uppeldi og félagsmótun stúlkna sé öðruvísi en drengja og beini þeim frekar í átt að hug- og félagsvísindum. Þess vegna þurfi að „opna raunvísindin meira fyrir hug- og félagsvísindum.“ Slíkar aðgerðir muni svo auka ásókn kvenna í raunvísindanám og vísar í „reynslu margra tækniháskóla í Evrópu sem að hafa farið út í sértækar aðgerðir í jafnréttismálum.“

Ennfremur segir Rósa: „[Auka þarf] þátt hug- og félagsvísinda í raunvísindum og draga úr þessum miklu stærðfræðikröfum sem að eru gerðar á 1. og 2. námsárinu. Og hafa þá frekar af því að það er einhver tilhneiging hjá þess hjá mörgum konum … að vera hræddar við stærðfræðina þannig að við drögum svolítið úr kröfunum á fyrstu námsárunum til þess að halda þeim inni í þessum greinum.“

Samkvæmt þessu hentar raunvísindanám ekki mörgum konum vegna þess að þær eru of félagslega þenkjandi og hræddar við stærðfræði. Til að bregðast við þessu er lagt til að námi í raunvísindadeild verði breytt og dregið úr kröfum í upphafi námsins.

Óhætt er að segja að þessar hugmyndir eru nokkuð umdeildar. Mörgum finnst hugmyndir sem þessar gera lítið úr stúlkum og þeirra námshæfileikum. Öðrum finnst að áherslur á fjölgun kvenna í raunvísindanámi HÍ sé tímaskekkja í ljósi þess að karlmenn eru færri en 40% af stúdentum.

En það eru fleiri atriði umdeilanleg við slíkar hugmyndir. Er ekki mikilvægt að í alvöru rannsóknarháskóla séu höfð önnur meginmarkmið en hvort námið sé vinsælt, skemmtilegt og auðvelt? Auk þess má spyrja hvort ekki er byrjað á röngum enda. Það hlýtur að vera betra að breyta hugarfari fólks á fyrri skólastigum en að hætta á að draga úr gæðum raunvísindanáms.

Það getur ekki verið að það sem skiptir mestu í slíku námi sé að þar stundi fleiri konur nám en karlar. Hvers vegna er ekki lögð jafnmikil áhersla á að fjölga körlum í hjúkrunarfræði, þar sem þeir eru teljandi á fingrum? Getur verið að þeir sem hafa stjórnað umræðu um jafnréttismál meti t.d. ekki verkfræði- og hjúkrunarfræðinám til jafns af einhverjum ástæðum?

Væri hugsanlega betri hugmynd að höfða til ungs fólks í grunn- og framhaldsskólum? Þannig væri hugsanlega hægt að auka áhuga stúlkna á raunvísindum og drengja á hugvísindum, sem hlýtur að vera jafnverðugt verkefni. Eða eigum við að gengisfella konur og gæði háskólanáms með að búa til sérstaka stelpustærðfræðideild?

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)