Sú ákvörðun Bandaríkjamanna að veita stjórnvöldum í Georgíu hernaðaraðstoð í baráttunni gegn skæruliðum múslima í landinu er merkileg í marga staði. Það er deginum ljósara að ef árásum hryðjuverkamanna á Bandaríkin þann 11. september var ætlað að sporna gegn hinni svokölluðu heimsvaldastefnu Bandaríkjanna þá hafa þær haft þveröfug áhrif. Bandaríkjamenn eru þvert á móti að styrkja stöðu sína í öllum heimshlutum, sérstaklega hernaðarlega en einnig í pólitísku tilliti að nokkru leyti.
Það hefði einhvern tímann þótt öldungis fráleitt að Bandaríkjamenn kæmust til hernaðarlegra áhrifa á Kákasussvæðinu og að þeir hefðu yfir að ráða herstöð í Kandahar. Þegar við bætast herstöðvar Bandaríkjamanna í Tyrklandi, Sádi-Arabíu, Jemen, og Breta á Indlandshafi er ljóst að tök þeirra á þessum heimshluta eru orðin mjög sterk. Með örskömmum fyrirvara gætu Bandaríkin t.a.m. brugðist við óróa í einstökum ríkjum, hersafnaður þeirra á svæðinu er að líkindum nægilegur til að gera innrás með litlum sem engum fyrirvara í óvinveitt ríki, Bandaríkin hafa aldrei verið í jafn góðri stöðu til að koma Ísraelsmönnum til hjálpar ef þeir yrðu fyrir árás. Og þannig mætti áfram telja.
Áhrif Bandaríkjamanna í Suðaustur-Asíu eru hins vegar ekki ný af nálinni og því ekki eins merkilegt að sérsveitir og búnaður sé sendur til Filippseyja til að berjast við múslimska uppreisnarmenn þar í landi. En samanlögð hernaðarleg staða Bandaríkjamanna í Mið-Asíu og Suðaustur-Asíu er sérstaklega athyglisverði í ljósi þeirrar stefnu sem Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, markaði áður en hryðjuverkamenn hleyptu öllu í bál og brand. Um þá stefnu var fjallað hér Deiglunni 23. mars á síðasta ári en hin nýja stefna Rumsfelds í varnarmálum gekk út að Kyrrahafið yrði næsti stóri vígvöllur og að Kína yrði andstæðingurinn. Staða Bandaríkjamanna nú í Mið-Asíu og Suðaustur-Asíu er vafalítið ekkert fagnaðarefni í Peking.
En svo við snúum okkur aftur að Georgíu, þá er spurning hvort samstarf stjórnvalda þar í landi við bandaríska herinn gefi tilefni til að hafa áhyggjur af þróun mála. Eftir að Bandaríkjamenn hófu allsherjarstríð gegn hryðjuverkamönnum og skipuðu stjórnvöldum um allan heim í flokk með sér í þeim efnum eða á móti, þá hafa ráðandi yfirvöld hvarvetna skilgreint andspyrnuhópa sem hryðjuverkamenn. Ef við færum atburðarásina örlítið aftur, hefðu Bandaríkjamenn átt að taka þátt í því með Rússum að murka lífið úr Tjsetsjenum? Eða að aðstoða Breta við að uppræta Írska lýðveldisherinn? Hverjir eru hryðjuverkamenn? Er það stjórnvalda á hverjum stað og hverjum tíma að skilgreina hvað eru hryðjuverkamenn? En ef hryðjuverkamenn komast til valda, eru andstæðingar þeirra þá hryðjuverkamenn?
Baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi er göfug og réttlát. En veruleg hætta er á að þeim krafti sem í hana er varið kunni að verða misbeitt. Því ber að ígrunda hvert skref gaumgæfileg og setja skýr markmið. Svo er bara spurningin: hvar verða fjórðu vígstöðvarnar?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021