Síðasta sumar voru málefni Fréttablaðsins mikið til umfjöllunar enda barðist þessi ungi fjölmiðill fyrir lífi sínu. Svo fór að blaðið kom ekki út í nokkrar vikur en síðan hófu nýir eigendur útgáfu þess á ný.
Fréttablaðið hefur verið öflugur fjölmiðill frá upphafi þrátt fyrir rekstrarörðugleika. Á hverjum degi birtist á forsíðu blaðsins dálkur þar sem vísað er til fjölmiðlakannanna sem sýna fram á sterka stöðu blaðsins á markaðnum, enda er því dreift endurgjaldslaust í u.þ.b. 80 þúsund eintökum.
Það er ekkert sem bendir til þess að ytri rekstrarskilyrði hafi breyst frá því að nýir eigendur tóku við, en áhrifamáttur öflugs fréttamiðils hefur eflaust laðað sterka fjárfesta að. Við skulum ekki gleyma því að íslensk fjölmiðlun gengur að miklu leyti út á völd og áhrif.
Á undanförnum vikum hafa spunnist umræður um það hver eða hverjir séu hinir nýju eigendur Fréttablaðsins, en því virðist vera kappkostað að halda leyndu. Óli Tynes, fréttamaður, spyr í Morgunblaðsgrein þann 19. október sl., hver eigi Fréttablaðið og beinir spurningunni til Gunnars Smára Egilssonar ritstjóra. Reyndar var ritstjórinn einnig spurður þessarar spurningar í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 fyrir nokkru og svaraði hann engu, heldur hló að henni.
Ragnar Tómasson, lögfræðingur og talsmaður hluthafa Fréttablaðsins, skrifaði einskonar svargrein í Morgunblaðinu 23. október sl. og gefur ekkert upp um eigendur Fréttablaðsins. Hann kýs að líkja blaðinu við ungt metnaðarfullt fólk sem kunni því illa að vera spurt af eldra fólki „hverra manna” það sé, heldur vilji vera metið að eigin verðleikum. Þessi samlíking er út í hött og í raun hjákátleg. Ragnar líkur svargrein sinni á orðunum „Styrkur dagblaðs og áhrif liggja í trúnaði þess við lesendur. Á þeim grunni hlýtur Fréttablaðið að byggja”. Þetta er nokkuð öfugsnúin fullyrðing þar sem í þessum trúnaði felst ekki vitneskja um það hver borgar fyrir dreifingu á 80 þúsund eintökum af þessum öfluga fréttamiðli.
Flestir fréttamiðlar, víðast hvar í hinum vestræna heimi, hafa það fyrir reglu að tilkynna hvenær fréttaflutningur skarast við hagsmuni eiganda miðilsins. Þetta er góð regla sem eðlilegt er að halda í heiðri.
Ekki verður hér farið út í vangaveltur um hver eða hverjir eru eigendur þessa miðils. Fréttablaðið er góður og gildur fjölmiðill með sterkan tilverurétt og hefur val um hvaða þá ritstjórnarstefnu sem aðstandendur þess kunna að kjósa. En undir lýðræðislegum kringumstæðum er ekki óeðlileg krafa að lesendum sé gert ljóst hver það er sem segir þeim fréttir á hverjum morgni, óumbeðið.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007