Nýlega var lögum um útlendinga breytt hér á landi. Sumar breytingar voru til hins betra en aðrar síðri. Ein verstu hugmyndanna birtist í eftirfarandi grein.
Þarna hefur lögjafanum tekist að fylgja eftir barnalegum hugmyndum margra Íslendinga um að „eitthvað verði að gera“, því „þetta fólk bara skilur ekki neitt og vill ekki læra.“ Lögin taka gildi í upphafi næsta árs.
Fljótt á litið virðist það ekki vera nein hræðileg hugmynd að skylda fólk til að læra íslensku ætli það sér að búa hér. Við Íslendingar þurfum, jú, að læra málið 10 ár í grunnskóla. Af hverju ætti það að vera svo slæmt að þurfa sækja nokkur kvöldnámskeið? Það er heldur ekki eins og það sé eitthvað böl að kunna nýtt tungumál. Íslenskukunnátta mundi auðvelda nýbúunum lífið í íslensku samfélagi, þýðingarkostnaður mundi lækka, fordómar minnka og fleira í þeim dúr.
Einnig hefur einhver veifað fram könnun þar meirihluti nýbúa lýsti sig fylgjandi hugmyndinni. „Fyrst að þau sjálf vilja það, hvað er fólk þá að væla?“ gæti einhver spurt.
Í fyrsta lagi þá var umrædd könnun framkvæmd meðal útlendinga á námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Útlendingar sem hafa ótilneyddir skráð sig í íslenskunámskeið eru auðvitað ömurlega ómarktækur úrtakshópur, á sama hátt og fólk á sjálfsvarnarnámskeiði er ekki góður úrtakshópur fyrir könnum á nauðsyn þess að kunna verja sig.
Í öðru lagi má ekki gleyma því að margir, sérstaklega í A-Evrópu, setja samasemmerki milli þess sem er skylda og þess sem er ókeypis. Einhverjir hafa því skilið spurninguna sem: „Mundirðu vilja sleppa borga fyrir námskeiðið sem þú ert á núna?“ Hins vegar hefur aldrei staðið til að hálfu löggjafans að námskeiðin yrðu ókeypis. Aðeins skylda.
En skoðun útlendinganna er auðvitað ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hvort umrædd lög muni yfirleitt skila einhverjum árangri. Það er því miður ólíklegt.
Það vita það allir allir sem það hafa prófað að ekki er hægt að læra tungumál á einu kvöldnámskeiði. Hvað þá íslensku. Þar sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að menn þurfi að þreyta neitt próf þá er hætt við að námskeiðin verði aðeins skriffinnska og formlegheit sem muni engu skila. Þeir sem eru neyddir til að læra e-ð sem þeir hafa ekki áhuga á verða sjaldnast góðir nemendur.
Einnig verður að skoða hverjir það munu verða sem þurfi að sækja þessi námskeið. Norðurlandabúar eru undanþegnir þeim því þeir þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi. Sama á við alla ESB-borgara en EES samningurinn tryggir frjálsa fólksflutninga milli landa. Innan tveggja ára mun gamla austurblokkin ganga í Evrópusambandið og þá munu t.d. Pólverjar, stærsti minnihlutahópurinn, „sleppa“. Stærsti hópur útlendinga sem munu þurfa sitja íslenskunámskeið verða þá… Bandaríkjamenn. Einhvern veginn leyfi ég mér að efast um að það hafi verið ætlun þeirra sem settu hugmyndina fram. Vegna þrýstings að vestan munu USA-borgarar áreiðanlega einnig sleppa við námskeiðin svo loks mun það lenda á Asíubúum einum að þurfa sitja námskeiðin góðu.
Það er því ekki nóg með að hugmyndin sé vafasöm frá sjónarhóli mannréttinda og ólíkleg til að skila árangri heldur einnig mun hún ná til hlutfallslega þröngs hóps nýbúa. Það má því segja að hún sé þegar úreld.
Mun betri hugmynd felst í því að búa til stöðluð íslenskupróf fyrir útlendinga, líkt og þekkjast í öðrum löndum. Þeir sem lokið hefðu samræmdu prófi í íslensku (eða hærri prófum) þyrftu ekki á þeim að halda, en hinir gætu þreytt þau ef þeim sýndist. Vinnuveitendur og hið opinbera gætu síðan umbunað þeim sem lokið prófunum með hærri launum o.s.frv.
Ríkið eða einhver stofnun þess, t.d. Háskólinn, sæi um samningu og yfirferð prófanna en aðrir gætu tekið að sér kennslu fyrir þau, líkt og er gert með bílpróf í dag. Ef þess yrði gætt í kjarasamningum að umbuna þeim sem staðist hefðu prófin er tryggt að margir tækju þau sjálfviljugir. Þannig losna námskeiðshaldarar við fólk sem þarf bara mætingarstimpil í kladdann. Að auki mundi slík próf eiga við alla sem vildu sanna kunnáttu sína, jafnt Dana sem Tælending.
Það er nefnilega skrýtinn krafa að skylda aðeins gult fólk til að læra íslensku. Betra er að leyfa öllum að sýna fram á getu sína í íslensku og uppskera svo laun erfiðis sín.
Öllum sem vilja.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021